Viðskipti innlent

Fasteignagullæðið búið

Ásgeir jónsson og Sölvi H. Blöndal. „Við erum ekki að spá verðlækkun, en verðhækkunin verður minni,“ sagði Sölvi á fasteignaráðstefnu Kaupþings í gær.
Ásgeir jónsson og Sölvi H. Blöndal. „Við erum ekki að spá verðlækkun, en verðhækkunin verður minni,“ sagði Sölvi á fasteignaráðstefnu Kaupþings í gær. Mynd/Valli

Fasteignaverð á Íslandi mun ekki hækka jafn hratt á næsta ári eins og síðustu ár. Fasteignamarkaðurinn fer ekki undir frostmark heldur verður við ísskápshita. Verðhækkanir verða sem sagt undir fimm prósentum.

„Gullæðið er búið,“ segir Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings, um íbúðamarkaðinn. „Það er ekki hægt að búast við þessum miklu almennu hækkunum á fasteignamarkaði áfram. Með því er ég ekki að segja að markaðurinn sé daufur. Það verður kannski ísskápsvöxtur en ekkert frost.“

Greiningardeildin gerir ráð fyrir því að verðið geti lækkað að raunvirði, en ekki að nafnvirði á næstu árum. Gera megi ráð fyrir þriggja til sex prósenta hækkun á næstu tveimur árum.

Ásgeir fór yfir horfur á íbúðamarkaði á fasteignaráðstefnu Kaupþings í gær sem um 400 manns sóttu.

Ásgeir segir að markaðurinn sé að þroskast. „Til framtíðar verður hugsað meira um staðsetningu, umhverfi, gæði og slíkt.“

Ásgeir bendir einnig á að þunginn í byggingum hafi færst frá íbúðarhúsnæði og menn reisi nú frekar verslunar- og skrifstofuhúsnæði.

„Verð á verslunar- og skrifstofuhúsnæði náði hámarki í fyrra,“ segir Sölvi H. Blöndal, hjá greiningardeildinni, sem gerir ráð fyrir því að ró eigi eftir að færast yfir þann markað á næsta ári.

„Við erum ekki að spá verðlækkun, en verðhækkunin verður minni. Það eru gríðarleg umsvif í svona byggingum.“

Sölvi bendir á að leiguverðið hafi ekki fylgt öðrum verðhækkunum. „Ég held að þeir sem leigja geti vel unnt sínum hag. Það varð reyndar verðsprengja í fyrra. En það er í sjálfu sér leiðrétting.“

Sölvi bendir á að verð á verslunar- og skrifstofuhúsnæði sé mjög mismunandi eftir staðsetningu. Verðið sé hæst í miðborg Reykjavíkur. „Þetta byggist líka upp í kring um miðstöðvar. Við Smáralind, Kringluna og víðar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×