Erlent

Sködduð mæna löguð með nanótækni

Læknum hefur tekist að gera við skaddaða mænu í músum með hjálp nanótækni.
Læknum hefur tekist að gera við skaddaða mænu í músum með hjálp nanótækni. MYND/gettyimages

Læknum hefur tekist að gera við skaddaða mænu í músum með hjálp nanótækni. Tæknin getur mögulega læknað Parkinsons og Alzheimer.

Nanótækni felst í mótun smæstu eininga lífsins, sjálfum sameindunum sem liggja að grunni allra efnasambanda. Þessi tækni hefur nú þegar gert vísindamönnum kleift að búa til efni sem ekkert festist við og föt sem ekki verða óhrein. Nú er farið að beita tækninni til að örva líkamann til að lækna sig sjálfur.

Læknateymi dr. Samuels I. Stupp, stjórnanda Lífnanótæknistofnunar Northwesternháskólans í Bandaríkjunum, hefur tekist að gera við skaddaða mænu í tilraunamúsum. Mýsnar höfðu misst hreyfimátt afturlima, en sex vikum eftir nanómeðferð gátu þær notað limina á eðlilegan hátt. Þetta vekur vonir um að hægt verði að nota aðferðina til að laga skaddaða mænu, hjörtu, lifur og jafnvel heila í mönnum.

Aðferðin felst í notkun örþunnra nanótrefja sem sprautað er á þann stað sem hefur orðið fyrir skemmdum. Trefjarnar hindra bæði myndun örvefjar og örva nærliggjandi frumur til að hefja uppbyggingu og endurnýjun. Samkvæmt dr. Stupp væri hægt að búa til mismunandi trefjar fyrir hvern og einn sjúkling sem myndu taka mið af þörfum viðkomandi sjúklings.

Ef svo fer sem horfir gæti þarna verið komin lækning við mörgum hrörnunarsjúkdómum, þar á meðal Parkinsons og Alzheimer, en trefjarnar gætu hugsanlega bætt skaða á mikilvægum taugafrumum í heila, rétt eins og þeir virðast gera í mænu.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×