Erlent

Grænland var eins og Suður-Svíþjóð

Óli Tynes skrifar
Frá Smálöndum í Suður-Svíþjóð. Svona var umhorfs á Grænlandi.
Frá Smálöndum í Suður-Svíþjóð. Svona var umhorfs á Grænlandi.

Fyrir um hálfri milljón ára ríkti milt veðurfar á Grænlandi og gróður var þar svipaður og í suðurhluta Kanada eða í Smálöndunum í Svíþjóð. Þar voru grænir skógar og býsnin öll af skordýrum og öðru lífi. Þetta kemur fram í grein í vísindaritinu Science sem hefur vakið mikla athygli í allri umræðunni um loftslagsbreytingar.

Greinin í Science byggist á rannsóknum vísindamanna við Niels Bohr stofnunina í Svíþjóð og Líffræðistofnun Kaupmannahafnarháskóla. Niðurstöðurnar fengust eftir margra ára rannsóknir sem byggðust einkum á að bora í gegnum grænlensku íshelluna, niður á allt að tveggja kílómetra dýpi til þess að ná sýnishornum úr jaðveginum sem þar er undir.

Þau sýni voru DNA greind og leiddu í ljós að fyrir um hálfri milljón ára var Grænland gróðursælt og lífríkið fjölbreytt. Síðan þessi grein birtist í Science í síðustu viku hefur síminn ekki stoppað hjá vísindamönnunum.

Ekki síst hringja til þeirra bandarískir blaðamenn sem vilja vita hvort niðurstöðurnar bendi til þess að hættan á loftslagsbreytingum og bráðnun jökla sé ofmetin. Daninn Eske Willerslev segir að allir spyrji um loftslagsbreytingarnar en vill fara varlega í að svara slíkum spurningum.

Hann segir að það sé spennandi ef fortíðin geti sagt til um veðurfar framtíðarinnar en til þess þurfi frekari úrvinnslu. Niðurstöðurnar staðfesta þó að miklar sveiflur hafi verið í loftslaginu löngu áður en maðurinn byrjaði að menga jörðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×