Erlent

Hægt að eyða minningum með lyfjagjöf?

Vísindamönnum hefur tekist að eyða langtímaminni rotta án þess að valda varanlegum skemmdum á heila þeirra. Samkvæmt niðurstöðum þeirra er langtímaminnið ekki eins öruggt og áður var talið.

„Það er hægt að eyða minningum með því að beita lyfjum á ákveðin svæði í heilanum sem geyma minningarnar", sagði Yadin Dudai sem stýrði rannsókninni.

Tilraunir voru gerðar þar sem gervisætuefnið saccharine var sett út í fæði rotta og gerði það þær veikar. Eftir því sem leið á neysluna lærðu rotturnar að bragðið væri undanfari vanlíðunar. Þá sprautuðu vísindamennirnir efni að nafni ZIP, sem hamlar ensím, í heila rottanna sem truflaði flæði milli heilafruma. Það olli því að rotturnar gleymdu tengslunum milli bragðsins af sætuefninu og veikindanna, sama hve langan tíma þær höfðu haft til að læra tengslin.

Rannsóknirnar benda til að ákvæðið gangverk í heilanum starfi sem einskonar birgðageymsla minninga og að lítið mál sé að slökkva á því og eyða þannig minningunum án þess að skaða heilann.

Vísindamennirnir benda þó á að tilraunir sem þessar séu nýjar af nálinni og niðurstöðurnar séu ekki óyggjandi. Þá hafa þeir ekki í hyggju að reyna neitt slíkt á mannfólki. Hins vegar vonast vísindamennirnir til að rannsóknirnar nýtist við þróun lyfja gegn ýmsum heilabilunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×