Erlent

Mannkynið mun skiptast í yfir- og undirstétt á næstu hundrað þúsund árum

Mannkynið mun í framtíðinni skiptast í tvo hópa: Vel gefna, hávaxna, fagra og sjarmerandi einstaklinga og svo lágstétt stuttra og ljótra heimskingja. Þessu heldur þróunarfræðingurinn Oliver Curry frá London School of Economics fram að gerist á næstu hundrað þúsund árum.

Curry sagði í þætti á sjónvarpsstöðinni Bravo að mannkynið myndi þó ná líffræðilegum hápunkti sínum mun fyrr, eða í kringum árið 3000.

Þá verður meðalmaðurinn rúmlega tveggja metra hár og nær 120 ára aldri. Munur á litarhætti hefur þurrkast út, og mannkynið er allt eins kaffibrúnt. Karlmenn verða djúpraddaðri, með jafna andlitsdrætti og stærri getnaðarlimi. Konur verða með glansandi hár, stór augu, stinn brjóst og mjúka hárlausa húð.

Þaðan hallar undan fæti. Curry spáir því að um tíu þúsund árum síðar muni það hve háð við erum tækjum og tólum byrja að breyta því hvernig við lítum út. Mikil notkun okkar á lyfjum mun veikja ónæmiskerfi okkar og við munum verða barnalegri í útliti.

,,Á meðan tækni og vísindi hafa möguleikann á því að skapa draumaumhverfi fyrir mannkynið á næstu þúsund árum, þá er möguleiki á alvarlegum afleiðingum ofnotkunar á tækni, sem mun minnka náttúrulega hæfni okkar til að verjast sjúkdómum, og eiga samskipti hvort við annað" sagði Curry.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×