Erlent

Mannhæðahár sporðdreki fannst í Þýskalandi

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Evrópskir vísindamenn hafa fundið gríðarstóra steingerða kló af 2,5 metra löngum sjávarsporðdreka í þýskri námu. Fyrirbærið er talið 390 milljón ára gamalt samkvæmt líffræðitímaritinu Biology Letters. Dýrið sem hefur verið nefnt Jaekelopterus rhenaniae hélt sig líklegast til í ám eða fenjalendi.

Stærð skepnunnar bendir til að köngulær, skordýr, krabbar og svipuð dýr hafi verið mun stærri á fyrri tímum en hingað til hefur verið haldið.

Kló dýrsins mældist 46 cm sem bendir til að heildarlengd þess hafi verið töluvert meiri en mannshæð.

„Stærsti sporðdreki í dag er næstum 30 cm sem sýnir hversu stór þessi vera var," segir Dr. Simon Braddy frá háskólanum í Bristol. Það var félagi Braddys, Markus Poschmann sem uppgötvaði klónna í grjótnámunni og reyndi að ná henni út. Brotin varð að hreinsa og líma aftur saman.

Dýrin lifðu á tíma þegar súrefnismagn í andrúmsloftinu var mun hærra en í dag. Vísindamenn telja að það sé ein af ástæðunum fyrir stærð hryggleysingja á þessum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×