Erlent

Fornar kristalhauskúpur reyndust nútíma falsanir

Tvær af best þekktu kristalhauskúpum heimins eru nútíma falsanir. Þær voru áður taldar vera frá tímum fornra menningarsamfélaga. Sem kunnugt er leika kristalhauskúpur lykilhlutverk í nýjustu Indiana Jones myndinni.

Ný rannsókn á vegum sérfræðinga sýnir hinsvegar að hauskúpurnar sem geymdar eru annarsvegar á Breska Þjóðminjasafninu í London og hinsvegar á Smithsonian stofnunni í Washington eru allt annað en fornar.

Rannsóknin sýnir að hauskúpur þessar voru smíðaðar með tækni sem ekki var til á tímum Inkanna og Aztekanna í Suður-Ameríku en þær voru áður taldar tilheyra þeim menningarsvæðum.

Alls er vitað um tólf eða fleiri kristalhauskúpur í heiminum, á öðrum söfnum eða í einkaeigu. Hin nýja rannsókn vekur upp spurningar um hvort þær séu líka nútíma falsanir eða ekki.

Rannsóknin leiðir í ljós að kristalhauskúpan á Smithsonian var gerð með slípiefninu carborundum sem ekki var til í heiminum fyrr en á sjötta áratug síðustu aldar.

Og hauskúpan í London er talin hafa verið smíðuð á vegum franska fornmunasalans Eugene Boban sem lifði á nítjándu öldinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×