Erlent

Sjúkk við sleppum -líklega

Óli Tynes skrifar

Sagan um þrettán ára þýskan strák sem leiðrétti útreikninga NASA var of góð til þess að vera sönn.

Hún birtist fyrst í þýska blaðinu Potsdamer Neueste Nachrichten og hjá frönsku fréttastofunni AFP. Báðir þessir miðlar þykja nokkuð áreiðanlegir.

Málið snýst um möguleikana á því að risaloftsteininn Apophis lendi á jörðinni árið 2036.

NASA hafði reiknað út að möguleikarnir væru 1/45000. Það sagði hinn þrettán ára gamli Nico Marquardt að væri tveim núllum of mikið.

Hann sagði að NASA hefði gleymt að taka inn í dæmið möguleikana á því að Apophis rækist á einhvern þeirra þúsunda gervihnatta sem eru á braut um jörðu.

 

Apophis fer fyrst framhjá jörðinni föstudaginn 13. apríl (O, oh) árið 2029. Ef loftsteinninn rækist þá á eitthvert af gervitunglunum myndi það hundraðfalda líkurnar á því að hann rækist á jörðina árið 2036. Líkurnar yrðu þá 1/450.

Þýska blaðið og AFP sögðu í gær að NASA hefði viðurkennt að hafa gert mistök. Það er rangt. Og geimferðastöðin hafði ekki gleymt gervitunglunum. Þvert á móti var það Nico sem hafði gleymt að taka áfallshorn loftsteinsins með í reikninginn.

Það er 40 gráður frá miðbaug jarðar og því engin hætta á að hann rekist á einhvern gervihnattanna.

NASA og Nico eru þó sammála um hvað myndi gerast EF Apophis lenti á Atlantshafi. Loftsteinninn er 320 metrar um sig, samsettur úr járni og iridium.

Þyngdin er 200 milljarðar tonna. Áreksturinn myndi valda gífurlegum flóðbylgjum sem myndu ekki aðeins eyða hafnarborgum heldur ná víða langt inn í land. Rykský myndi umlykja jörðina um ófyrirsjáanlega framtíð.

En möguleikarnir eru semsagt ennþá aðeins 1/45000.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×