Erlent

NASA prófar geimbúninga fyrir tunglför

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Könnunarfarið Phoenix á Mars séð með augum listamanns.
Könnunarfarið Phoenix á Mars séð með augum listamanns. MYND/NASA

NASA prófar nú í óða önn geimbúninga og annan búnað fyrir stóra tunglleiðangurinn árið 2020.

Málshátturinn ekki er ráð nema í tíma sé tekið er augljóslega í hávegum hafður hjá bandarísku geimferðastofnuninni NASA því þar á bæ prófa menn nú sem aldrei fyrr hlífðarbúningana sem geimfararnir munu klæðast á tunglinu eftir 12 ár. Einkum er lögð áhersla á að allur búnaður þoli gríðarmiklar hitabreytingar og sandstorma sem ekki eiga sinn líka á jörðinni.

Æfingarnar miða flestar að lendingunni sjálfri og uppsetningu svokallaðra útstöðva í kringum tunglferjuna. Það eru hópar frá einum sjö NASA-rannsóknarstöðvum sem vinna saman að búningaprófuninni en í henni er meðal annars líkt eftir sandstormi með stórum blásurum og þurfa þátttakendurnir að finna hver annan í storminum og komast svo í sameiningu á ákveðinn stað. Þetta mun hægar vera sagt en gert enda sjá þeir bókstaflega ekki glóru á meðan.

Það verður greinilega fjölmennt í geimnum í framtíðinni því sjö manna hópur hefur æft stíft fyrir Marsferð á Suðurskautslandinu. Þeirra helsta þrekraun eru ekki sandstormar heldur að þola hver annan í 30 mánuði og rækta sín eigin matvæli við frekar takmarkaðar aðstæður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×