Erlent

Sjávarréttir á matseðli Neanderdalsmanna

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Þessar rækjur eru ekki ógirnilegar og nú bendir allt til þess að Neanderdalsmanninum hafi einnig þótt svo.
Þessar rækjur eru ekki ógirnilegar og nú bendir allt til þess að Neanderdalsmanninum hafi einnig þótt svo. MYND/Hickerphoto.com

Neanderdalsmaðurinn reynist hafa neytt fjölbreyttari fæðu en áður var talið og nú hefur komið í ljós að sjávarréttir voru ofarlega á matseðlinum.

Þessir veiðimenn ísaldarinnar sem voru forsmekkurinn að mannkyni nútímans reyndust hafa mun fjölbreyttari smekk en svo að þeir legðu sér eingöngu til munns kjötmeti af skepnum veiddum uppi á landi. Þetta var þó lífseig kenning þar sem langflestar mannvistarleifar tengdar Neanderdalsmanninum hafa fundist langt inni í landi, til dæmis í Neanderdalnum í Þýskalandi sem lagði þessum forfeðrum til nafnið.

Nú hefur mannfræðingurinn Christopher Stringer við Náttúrusögusafnið í London uppgötvað menjar í tveimur sjávarhellum við Gíbraltar sem þykja benda eindregið til þess að þar hafi Neanderdalsmenn haldið til og ekki skirrst við að renna fyrir fisk í soðið í bland við hefðbundið kjötmeti. Þetta sýna leifar ýmissa sjávardýra sem fundist hafa í hellunum og bera þess öll merki að hafa verið kvöldverður einhvers fyrir svona eins og 30.000 árum en sú tímasetning smellpassar við tímabil Neanderdalsmannsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×