Erlent

Gullörn fæli refi af flugbrautum

Stjórnendur flugvallarins við hafnarborgina Bari á Ítalíu hafa gripið til þess ráðs að fá taminn gullörn til liðs við sig. Er erninum ætlað að fæla refi frá flugbrautunum á vellinum

Á undanförnum mánuðum hefur oft þurft að loka flugbrautum þar sem refir hafa verið á veiðum við eða á þeim. Eru refirnir á höttunum eftir kanínum og músum sem mikið er af á þessum slóðum.

Flugvallaryfirvöld hafa því fengið gullörninn Cheyenne til liðs við sig en örninn kemur frá Þýskalandi þar sem hann var alinn upp og þjálfaður. Vænghaf hans er tveir metrar og hann getur lyft 18 kílóum eða þrefaldi þyngd sinni. Vonast er til að örninn muni fæla refina frá flugvellinum nú þegar gottími refanna fer í hönd.

Um tvær milljónir farþega fara um flugvöllinn á hverju ári og því hafa hindranir á flugi vegna refaplágunnar kostað miklar fjárhæðir. Flugvellir bregðast yfirleitt við dýraplágum af þessu tagi með því að beita hátíðnihljóðum en þetta er í fyrsta sinn sem örn er kallaður til.

Cheyenne mun kosta um 900.000 krónur og er þjálfun hans um það bil að ljúka. Reiknað er með að örninn muni taka við hinu nýja starfi sínu í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×