Erlent

Bretar notuðu stjörnuspeking í baráttunni gegn Hitler

Hulunni hefur verið svipt af leyniskjölum í Bretlandi sem sýna að yfirvöld þar í seinni heimstryjöldinni notuðu stjörnuspeking í baráttu sinni gegn Hitler

Um var að ræða hinn ungverskættaða stjörnuspeking Ludwig von Wohl en breska leyniþjónustan taldi að hann gæti séð fyrir hvað stjörnuspekingar Hitlers væru að ráðleggja honum á hinum ýmsu stigum stríðsrekstursins.

Það var löngum vitað að Hitler var mjög hjátrúarfullur maður og studdist mikið við stjörnuspekinga og þeirra ráð við ákvarðanatökur sínar. Vitað er að sá stjörnuspekingur sem ekki sá fyrir flótta Rudolph Hess á sínum tíma endaði æfi sína í útrýmingarbúðum nasista.

Ludwig von Wohl var ráðinn til bresku leyniþjónustunnar árið 1940 og hann kom strax fram með þá áætlun að athuga ráðleggingar Karl Ernest Kraft, svissnesk stjörnuspekings sem Hitler ráðlagði sig oft við.

Einn af þeim sem var hrifinn af verkum von Wohl var flotaforinginn John Godfrey sem var yfirmaður leyniþjónustu breska flotans. Aðrir yfirmenn leyniþjónustudeilda voru víst síður hrifnir af störfum von Wohl.

Þess má geta að John Godfrey er talinn fyrirmynd Ian Fleming að persónunni M í bókaflokknum um James Bond.

Ekki er getið um árangur af vinnu von Wohl í leyniskjölunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×