Erlent

Geimfarar NASA æfa sig í einangrun á suðurskautinu

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Ryderflói á Suðurskautslandinu
Ryderflói á Suðurskautslandinu MYND/Vísindavefurinn

Bandaríska geimferðastofnunin NASA notar Suðurskautslandið sem æfingabúðir fyrir geimfara sem hyggja á mjög langa dvöl í geimnum.

Staðurinn hentar ágætlega til að búa geimfarana undir það sem bíður þeirra í lengri geimferðum. Þessi heimkynni mörgæsanna eiga það nefnilega sameiginlegt með geimfari sem svífur um í óravíddum geimsins að þaðan er engin leið að komast, að minnsta kosti ekki með góðu móti. Um suðurskautið gildir þetta að minnsta kosti á veturna.

Des Lugg, ráðgjafi hjá NASA og fyrrum rannsóknarmaður á suðurskautinu, segir það taka lengri tíma að komast til jarðar frá alþjóðlegu geimstöðinni en að komast burt af Suðurskautslandinu um hávetur.

Síðastliðin 15 ár hefur NASA unnið að því í samvinnu við Suðurskautsrannsóknarstofnun Ástralíu að kanna áhrif margra mánaða einangrunar og ískulda á líkams- og geðheilsu manna. Þarna dveljast geimfarar í allt að níu mánuði í senn og kynnast því hvaða áhrif einangrunin hefur að því ógleymdu að vera í sama félagsskapnum 24 tíma á sólarhring í þann tíma. Þetta þarf að liggja fyrir áður en menn leggja á sig langar geimferðir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×