Sport

Jóhanna með gull og silfur á danska meistaramótinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jóhanna Ingadóttir úr ÍR átti mjög gott innanhústímabil.
Jóhanna Ingadóttir úr ÍR átti mjög gott innanhústímabil. Mynd/Anton

ÍR-ingurinn Jóhanna Ingadóttir setti endapunktinn á flott innanhústímabil hjá sér með því að vinna til tveggja verðlauna á danska meistaramótinu í frjálsíþróttum sem auk í Skive í gær. Jóhanna tryggði sér sigur í þrístökki á laugardaginn og varð síðan í öðru sætinu í langstökki í gær.

Sex íslenskir keppendur á mótinu komust alls átta sinnum á verðlaunapall á mótinu. Jóhanna var sú eina sem náði gulli en bæði Linda Björk Lárusdóttir og Hafdís Sigurðardóttir unnu einnig til tveggja verðlauna.

Jóhanna vann þrístökkið í Skive með yfirburðum á laugardaginn en hún stökk þá 12,40 metra, eða 61 sentimetra lengra en næsti keppandi. Jóhanna var nálægt Íslandsmeti Sigríðar Önnu Guðjónsdóttur úr HSK en það er 12,83 metrar.

Þær Jóhanna og Hafdís hafa háð mikið einvígi í langstökkinu í vetur. Hafdís vann Jóhönnu í langstökki í Bikarkeppninni en Jóhanna hafði betur á Meistaramótinu. Í Danmörku stökk Jóhanna 5,72 metra og varð í 2. sæti en Hafdís tryggði sér 3. sætið með því að stökkva 5,65 metra.

Linda Björk Lárusdóttir varð í 2. sæti í 60 metra grindarhlaupi og í 3. sæti í 60 metra hlaupi. Hafdís Sigurðardóttir varð eins og áður sagði í 3. sæti í langstökkinu en hún náði einnig 3. sætinu í 200 metra hlaupi. Arndís María Einarsdóttir úr Breiðabliki varð síðan í 3. sæti í 400 metra hlaupi.

FH-ingurinn Kristinn Torfason náði 2. sætinu í langstökki eins og Jóhanna þegar hann stökk 6,80 metra. Kristinn varð eini íslenski karlmaðurinn sem komst á pall á danska meistaramótinu en Bjartmar Örnuson UFA úr varð í 8. sæti í 400 metra hlaupi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×