Körfubolti

Brynjar spilar ekki með KR næsta vetur - búinn að semja við Jämtland

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brynjar Þór Björnsson.
Brynjar Þór Björnsson. Mynd/Anton
KR-ingurinn Brynjar Þór Björnsson hefur leikið sinn síðasta leik í bili fyrir Vesturbæjarliðið því hann er búinn að gera samning við sænska félagið Jämtland. Þetta kemur fram á basketsverige.se.

Brynjar fór á kostum með KR í úrslitakeppninni en hann varð þá þrátt fyrir ungan aldur Íslandsmeistari í þriðja sinn með félaginu. Brynjar sem verður 23 ára í sumar var með 21,2 stig að meðaltali í úrslitakeppninni þar sem hann skoraði 20 stig eða meira í sjö leikjum.

Brynjar er fimmti leikmaðurinn í sænsku deildinni, Jakob Örn Sigurðarson og Hlynur Bæringsson urðu meistarar með Sundsvall í vetur, Logi Gunnarsson lék með Solna og Helgi Már Magnússon spilaði hjá Uppsala.

„Við höfum séð það að Brynjar á engum vandræðum með að skjóta boltanum og það mun ekki hafa nein áhrif á hann þegar þriggja stiga línan verður færð út. Hann hefur líka frábært hugarfar og spilar af áræðni sem passar vel fyrir okkur," saði Dennis Aulander, þjálfari Jämtland.

 

„Við reiknum með að Brynjar verði byrjunarliðsmaður hjá okkur en við ætlum að bæta við okkur þremur öðrum leikmönnum þar af tveimur Bandaríkjamönnum. Við ætlum að vera sterkari en í fyrra," sagði Íþróttastjórinn Pecka Johansson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×