Golf

Ólafía Þórunn með tveggja högga forskot hjá konunum - erfitt hjá Tinnu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR. Mynd/GVA
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR er efst eftir annan dag í meistaraflokki kvenna á Íslandsmótinu í höggleik sem fram fer á Hólmsvelli í Leiru. Ólafía Þórunn lék á tveimur höggum undir pari í dag eftir að hafa leikið á pari í gær. Hún er því á tveimur höggum undir pari eftir fyrstu 36 holurnar.

Ólafía Þórunn er með tveggja högga forskot á Eyglóu Myrru Óskarsdóttur úr Golfklúbbnum Oddi. Eygló Myrra var með forystu um tíma í dag en tapaði tveimur höggum á síðustu tveimur holunum. Ólafía fékk hinsvegar fugl á 18. holunni og kom til baka eftir að hafa fengið skolla á 16. og 17.

Signý Arnórsdóttir úr GK er í 3. sæti á þremur höggum yfir pari en GR-ingurinn Berglind Björnsdóttir kemur síðan í 4. sætinu höggi á eftir.

Tinna Jóhannsdóttir úr Keili var með forystu eftir fyrsta daginn en hún byrjaði skelfilega í dag. Tinna lék á þremur höggum undir pari í gær (nýtt vallarmet) en tapaði sjö höggum á fyrstu níu holunum í dag. Hún endaði á því að leika á 9 höggum yfir pari eða á tólf höggum meira en í gær. Tinna er í 7. til 9. sæti.

Staðan hjá konunum eftir tvo daga á Íslandsmótinu í höggleik:

1. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR -2

2. Eygló Myrra Óskarsdóttir, GO Par

3. Signý Arnórsdóttir, GK +3

4. Berglind Björnsdóttir, GR +4

5. Ingunn Gunnarsdóttir, GKG +5

5. Valdís Þóra Jónsdóttir, GL +5

7. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK +6

7. Þórdís Geirsdóttir, GK +6

7. Tinna Jóhannsdóttir, GK +6

10. Karen Guðnadóttir, GS +11




Fleiri fréttir

Sjá meira


×