Körfubolti

Umfjöllun: Grindvíkingar unnu öruggan sigur

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Leik Fjölnis og Grindavíkur lauk með 95-73 sigri Grindavíkur í Iceland-Express deild karla í kvöld. Grindavík hefur byrjað tímabilið vel, þeir unnu núverandi tvöfalda meistara, KR í meistarar meistaranna og unnu svo nágranna sína í Keflavík í fyrsta leik deildarinnar. Fjölnismenn töpuðu hins vegar fyrir ÍR í fyrstu umferð og voru því að leita að fyrsta sigrinum á þessu tímabili.

Grindvíkingar hófu leikinn vel og náðu strax forskotinu sem þeir áttu eftir að halda út leikinn, Fjölnismenn voru þó aldrei langt frá en flautukarfa Giordan Watson í fyrsta leikhluta var í fyrsta sinn sem Grindvíkingar náðu yfir tíu stiga forskoti. Sigurður Gunnar Þorsteinsson átti afar góðan fyrsta hálfleik þar sem hann setti tíu stig og tók 3 fráköst.

Það sama var upp á teningunum í öðrum leikhluta, Grindvíkingar héldu öruggu forskoti út allan fyrri hálfleikinn og með góðum 11-2 kafla komu þeir forskotinu hæst upp í 19 stig. Í hálfleik var staðan 34-49 fyrir Grindavík og voru Sigurður og Ólafur Ólafsson atkvæðamestir hjá Grindavík með 10 stig en í liði Fjölnis var Nathan Walkup stigahæstur með 10 stig.

Fjölnismenn hófu þriðja leikhluta vel og pressuðu hátt á Grindvíkingurmenn og náðu að minnka forskotið niður í 8 stig en Grindvíkingar unnu sig aftur inn í leikinn og náðu aftur að byggja upp gott forskot rétt fyrir lok þriðja leikhluta og lauk honum í stöðunni 58-72 fyrir Grindavík.

Grindvíkingar héldu svo áfram uppteknu skriði í fjórða leikhluta, þeir héldu Fjölnismönnum í öruggri fjarlægð og náðu mest 22 stiga forskoti. Leikurinn endaði svo með öruggum 76-95 sigri Grindvíkinga.

Calvin O'Neal var stigahæstur í liði heimamanna með 22 stig og Nathan Walkup var með 16 stig á meðan Sigurður Gunnar Þorsteinsson var stigahæstur í liði Grindavíkur með 15 stig/11 fráköst og Jóhann Árni Ólafsson var með 13 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×