Körfubolti

Umfjöllun: Lokaspretturinn tryggði Snæfelli tvö stig á Ásvöllum

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Pálmi Freyr Sigurgeirsson
Pálmi Freyr Sigurgeirsson Mynd/Vilhelm
Deildarmeistarar Snæfells hófu titilvörn sína gegn Haukum á Ásvöllum í kvöld með 89-93 sigri. Leikurinn var jafn og spennandi frá fyrstu mínútu og skiptust liðin á að vera yfir framan af leik. Snæfell var yfir eftir fyrsta leikhluta, 22-20, en staðan í hálfleik var jöfn 43-43.

Haukar léku betur í þriðja leikhluta en voru aðeins tveimur stigum yfir að honum loknum 71-69 þar sem Ólafur Torfason skoraði mikilvæga þriggja stiga körfu fyrir Snæfell 24 sekúndum áður en þriðja leikhluta lauk og Haukar náðu ekki að nýta síðustu sókn sína. Quincy Hankins-Cole lék ekki síðustu fjórar mínútur leikhlutans eftir að hann fékk sína fjórðu villu og náðu Haukar ekki að nýta sér það en Hankins-Cole hafði mikla yfirburði í fráköstum í leiknum.

Haukar hófu fjórða leikhluta af miklum krafti og virtist allt stefna í öruggan sigur heimanna þegar Haukar komust níu stigum yfir 82-73 þegar sex mínútur voru til leiksloka.

Snæfell hafði skipt yfir í svæðisvörn og héldu áfram að treysta á hana og það skilaði sér þegar upp var staðið því Haukar skoruðu aðeins sjö stig síðustu sex mínúturnar. Haukar héldu þó frumkvæðinu og voru fimm stigum yfir, 86-81, þegar tvær mínútur voru eftir.

Þá fór Snæfell á flug þar sem Brandon Cotton fór á kostum, Snæfell skoraði 10 stig í röð á einni og hálfri mínútu og þó Haukar næðu að minnka muninn í þrjú stig þá skoraði Snæfell tvö síðustu stig leiksins og fjögurra stiga sigur deildarmeistaranna staðreynd 89-93.



Haukar-Snæfell 89-93 (20-22, 23-21, 28-26, 18-24)

Stig Hauka: Jovani Shuler 20 (7 fráköst), Örn Sigurðarson 16 , Haukur Óskarsson 14, Davíð Páll Hermannsson 14 (8 fráköst), Sveinn Ómar Sveinsson 9, Sævar Ingi Haraldsson 9 (6 stoðsendingar), Helgi Björn Einarsson 5, Emil Barja 2

Stig Snæfels: Brandon Cotton 33, Quincy Hankins-Cole 17 (15 fráköst, 6 stoðsendingar), Pálmi Freyr Sigurgeirsson 16, Sveinn Arnar Davidsson 12 (7 stoðsendingar), Jón Ólafur Jónsson 6 (9 fráköst), Ólafur Torfason 7, Hafþór Ingi Gunnarsson 2






Fleiri fréttir

Sjá meira


×