Körfubolti

Grindavík stakk Keflavík af í þriðja leikhlutanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Giordan Watson lék vel í kvöld.
Giordan Watson lék vel í kvöld. Mynd/Stefán
Grindvíkingar fylgdu eftir sigri í Meistarakeppni KKÍ um helgina með því að vinna sex stiga sigur á nágrönnum sínum í Keflavík, 86-80, í fyrstu umferð Iceland Express deildar karla í kvöld. Grindavík lagði grunninn að sigrinum með góðum þriðja leikhluta eftir að Keflavík hafði verið með frumkvæðið framan af leik.

Giordan Watson var atkvæðamestur hjá Grindavík með 23 stig og 6 stoðsendingar en Páll Axel Vilbergsson skoraði 16 stig á 28 mínútum og Sigurður Gunnar Þorsteinsson var með 13 stig á móti sínum gömlu félögum. Alls skoruðu sjö leikmenn Grindavíkur sjö stig meða meira

Magnús Þór Gunnarsson og Jarryd Cole fóru hinsvegar fyrir Keflavíkurliðinu í kvöld, Magnús var með 28 stig og Cole skoraði 29 stig og tók 16 fráköst.

Keflvíkingar byrjuðu vel með Magnús Þór Gunnarsson í fararbroddi, komust í 7-0, 12-2 og 15-6 og Magnús Þór var búinn að skora sjö stig á fyrstu fjórum mínútunum.

Grindavík vann sig fljótlega inn í leikinn og keflavík var bara tveimur stigum yfir, 16-14, eftir fyrsta leikhlutann. Leikurinn hélst jafn fram að hálfleik en Keflavík var tveimur stigum yfir í hálfleik, 38-36.

Grindvíkinga skoruðu sjö fyrstu stig seinni hálfleiks og tóku frumkvæðið sem þeir héldu út leikinn. Grindavík var sjö stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 60-53 og var 86-71 yfir þegar 50 sekúndur voru eftir en Keflavík lagaði stöðuna með því að skora níu síðustu stigin í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×