Körfubolti

Pétur hættur með Hauka

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pétur Ingvarsson, fyrrverandi þjálfari Hauka.
Pétur Ingvarsson, fyrrverandi þjálfari Hauka. Mynd/Stefán
Pétur Ingvarsson, þjálfari Hauka í Iceland Express-deild karla, hefur ákveðið að segja starfi sínu lausu hjá félaginu.

Þetta staðfesti Samúel Guðmundsson, formaður körfuknattleiksdeildar Hauka, í samtali við Vísi en fréttavefur Rúv greindi frá uppsögninni fyrr í kvöld.

Samúel sagði að það hefði verið vilji stjórnarinnar að halda Pétri. „Hún lýsti fullum stuðningi við hann nú síðast í gær og þetta var ekki frá okkur komið," sagði Samúel.

„Ég held að hann sé fyrst og fremst óánægður með gengi liðsins enda mikill keppnismaður. Við erum ekki komnir af stað með leit að eftirmanni hans en við erum þó með einhver nöfn í huga."

„En það er alveg ljóst að það verður eftirsjá að Pétri," bætti Samúel við.

Haukar eru í tíunda sæti deildarinnar með tvö stig af tíu mögulegum. Liðið tapaði fyrstu fjórum leikjum sínum á tímabilinu en vann svo Fjölni, 78-73, í síðustu umferð.

Í Lengjubikarnum er liðið búið að vinna einn leik af þremur til þessa, einnig gegn Fjölni. Haukar töpuðu þó óvænt fyrir KFÍ á heimavelli, sem og fyrir Grindavík.

Pétur þjálfaði áður lið Hamars en hætti með liðið á haustmánuðum 2007, eftir að liðið hafði unnið einn af fimm fyrstu leikjum sínum í deildinni það tímabilið - rétt eins og nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×