Körfubolti

Sjötti sigur Grindvíkinga í röð kom þeim á toppinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þorleifur Ólafsson stýrði leik Grindavíkur í kvöld.
Þorleifur Ólafsson stýrði leik Grindavíkur í kvöld.
Grindvíkingar komust á topp Iceland Express deildar karla með sannfærandi ellefu stiga sigri á Tindastól, 77-66 í Röstinni í Grindavík. Grindavíkurliðið fór upp fyrir Snæfellinga með þessum sigri en Hólmarar geta endurheimt toppsætið með sigri á Njarðvík á morgun.

Grindvíkingar eru búnir að vinna sex leiki í röð í Iceland Express deildinni þar af þrjá þeirra eftir að bandaríski leikmaðurinn Brock Gillespie sveik þá og sá til þess að þeir hafa verið án kana í öllum leikjum sínum á árinu 2011.

Páll Axel Vilbergsson átti frábæran leik og var með 26 stig, 11 fráköst og 5 stoðsendingar. Páll Axel hitti úr 10 af 14 skotum sínum í leiknum. Guðlaugur Eyjólfsson skoraði 15 stig fyrir Grindavík og Þorleifur Ólafsson var með 13 stig. Hayward Fain var stigahæstur hjá Tindastól með 20 stig og fyrirliðinn Helgi Rafn Viggósson skoraði 18 stig.

Það var jafnt eftir fyrsta leikhluta (20-20) en Grindvíkingar voru komnir með níu stiga forskot í hálfleik (44-35) og gerðu síðan út um leikinn með frábærum kafla í þriðja leikhluta. Grindvíkingar stungu endanlega af með því að breyta stöðunni úr 51-41 í 63-43 á tæplega fjögurra mínútna kafla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×