Körfubolti

Það var kominn tími á búning sem vekti athygli

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Sitt sýnist hverjum um fegurð nýja KR-búningsins. Honum hefur verið breytt lítillega fyrir leik kvöldsins.
Sitt sýnist hverjum um fegurð nýja KR-búningsins. Honum hefur verið breytt lítillega fyrir leik kvöldsins. Mynd/Stefán
Karlalið KR mun frumsýna nýjan og endurbættan búning í kvöld er liðið tekur á móti sínum gamla þjálfara, Benedikt Guðmundssyni, og lærisveinum hans í Þór Þorlákshöfn. Breytingarnar koma þó ekki af góðu einu því aðalstjórn KR fór meðal annars fram á breytingar.

Aðalstjórninni hugnaðist ekki að körfuknattleiksdeildin hefði sett númer leikmanna inn í merki félagsins. Númerin hafa verið fjarlægð úr merkinu og færð yfir á hitt brjóstið. Svo hafa verið gerðar breytingar á buxunum.

„Mönnum fannst guli liturinn í buxunum minna of mikið á Skagann. Þess vegna verðum við í alhvítum stuttbuxum á heimavelli og svörtum á útivelli," sagði Böðvar Guðjónsson, formaður körfuknattleiksdeildar KR.

Umræðan um búning félagsins hefur ekki farið fram hjá honum enda virðast margir KR-ingar hafa sterka skoðun á búningnum. Flestum finnst hann hreinlega ljótur en aðrir eru hrifnir.

„Það var kominn tími á búning sem vekti athygli og vekti spurningar. Af hverju eigum við að vera í meðalmennskunni þar sem enginn tekur eftir nýju búningunum?" sagði Böðvar brattur.

„Ég veit að rendurnar eru líka umdeildar en þeim verður ekki breytt. Það var mikil vinna lögð í hönnun á þessum búningi. Við skoðuðum mikið af gömlum KR-búningum sem og NBA-búninga. Fundum eina treyju þar sem Scott Skiles er ansi flottur í búningi Orlando Magic. Skiles var flottur í teinóttu og þar kom það. Skiles var að gefa um 15 stoðsendingar í leik og það er einmitt það sem mig vantar frá mínum leikstjórnanda," sagði Böðvar kíminn, en svona mjóar rendur hafa ekki áður sést á KR-búningi.- hbg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×