Viðskipti erlent

Settar verði strangari reglur um félagsvefi

Viviane Reding
Viviane Reding
„Fyrirtæki hafa sérstaka ábyrgð þegar helsta tekjulind þeirra eru persónugögn,“ sagði Viviane Reding, sem fer með dómsmál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

Hún kynnti í gær hugmyndir sínar um nýjar Evrópusambandsreglur um gagnavernd og netþjónustufyrirtæki, sem kæmu í staðinn fyrir misgamlar og misúreltar reglur einstakra aðildarlanda.

Samkvæmt tillögum hennar þurfa fyrirtæki á borð við Facebook og Google, sem reka félagslega vefþjónustu, að efla mjög gagnsæi starfsemi sinnar. Meðal annars þyrftu þau að upplýsa notendur sína um það hvaða gögnum er safnað um þá, hvernig þau eru notuð og hvernig þau eru geymd.

Reding segir að það muni auðvelda fyrirtækjunum í þessu efni ef settar verða samræmdar reglur fyrir öll Evrópusambandslöndin, frekar en að mismunandi lög gildi í aðildarríkjunum sem nú eru 27 orðin.

„Ég vil draga mjög úr allri skriffinnskunni,“ segir hún.

Núverandi gagnaverndarlög Evrópusambandsins eru frá árinu 1995, eða frá því löngu fyrir tíma netþjónustufyrirtækja á borð við Facebook og Google.- gb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×