Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: KR - Snæfell 111-104

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Mynd/Stefán
KR tryggði sér sæti í undanúrslitum Poweradebikarsins með sigri á Snæfelli í tvíframlengdum leik 111-104 á heimavelli þar sem Joshua Brown fór á kostum með 49 stig.

KR skoraði sex fyrstu stig leiksins en Snæfell vitist ekki tilbúið í leikinn í byrjun og tók Ingi Þór þjálfari liðsins leikhlé eftir tæplega þriggja mínútna leik til að vekja sína menn.

Snæfell svaraði kalli þjálfara síns og skoraði fimm stig í röð áður en KR tók öll völd á vellinum á ný. Gestirnir áttu í miklum vandræðum með að hemja boltann en liðið tapaði boltanum alls sjö sinnum í fyrsta leikhluta og var KR tíu stigum yfir 27-17 að leikhlutanum loknum.

Snæfell hóf annan leikhluta af krafti og var búið að minnka forystu KR niður í tvö stig 32-30 á rétt rúmlega þremur mínútum og þegar fjórar mínútur voru til hálfleiks var staðan orðin jöfn 36-36. Snæfell komst yfir 46-45 þegar mínúta var til hálfleiks og var tveimur stigum yfir í hálfleik 47-45 en gestirnir skoruðu sjö síðustu stig fyrri hálfleiks.

KR skoraði tíu fyrstu stig seinni hálfleiks og til að bæta gráu ofan á svart fyrir Snæfell fékk Jón Ólafur Jónsson sína fjórðu villu eftir aðeins þriggja mínútna leik í þriðja leikhluta og KR níu stigum yfir 58-49.

Þetta kveikti í gestunum sem hertu varnarleikinn og KR skoraði ekki í tæplega fjórar mínútur. Snæfell minnkaði muninn í tvö stig 58-56 en KR endaði fjórðunginn betur og jók forystun í fimm stig, 66-61, fyrir fjórða leikhluta.

KR hóf fjórða leikhluta af krafti og var tíu stigum yfir, 74-64, þegar sjö mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.

Robert Ferguson framherji KR fékk sína fimmtu villu þegar tæpar fimm mínútur voru til leiksloka og KR sjö stigum yfir 76-69 en hann hafði farið mikinn í leiknum með 18 stig og 7 fráköst.

Joshua Brown steig upp fyrir KR á lokasprettinum en Snæfell var aldrei langt undan og jafnaði Quincy Hankins-Cole metin með þriggja stiga körfu 83-83 þegar 40 sekúndur voru eftir.

Finnur Magnússon náði ekki skoti í síðustu sókn KR og skot Hankins-Cole þegar lokaflautið gall geigaði og því þurfti að framlengja.

KR hóf framlenginguna án Ferguson og Serbans Dejan Sencanski sem báðir voru komnir með fimm villur og Brown einn í einhverjum takti í sóknarleiknum. Snæfell var með byrinn með sér er framlengingin hófst en með góðum varnarleik og Brown sjóðheitann náði KR frumkvæðinu og var þremur stigum yfir 88-85 þegar tvær mínútur voru eftir af framlengingunni.

Jón Ólafur minnkaði muninn í eitt stig og virtust liðin í miklum vandræðum með að hemja taugarnar þegar til Pálmi Sigurgeirsson kom Snæfelli yfir 89-88 þegar hálf mínúta var eftir af framlengingunni.

KR fór í sókn og einhverra hluta vegna var boltinn ekki í höndunum á Brown. Hreggviði Magnússyni brást bogalistin og Pálmi Sigurgeirsson nýtti tvö víti í kjölfarið og Snæfell þremur stigum yfir.

Þá settu KR-ingar boltann í hendurnar á Brown og hann jafnaði leikinn með ótrúlegri þriggja stiga körfu af löngu færi 91-91 og því þurfti að framlengja aftur.

Marquis Hall leikstjórnandi Snæfells fékk sína fimmtu villu þegar tvær og hálf mínúta var eftir af seinni framlengingunni og í kjölfarið kom Brown KR sjö stigum yfir 101-94 og rétt tæpar tvær mínútur eftir.

Snæfell náði ekki að narta í forystu KR í þetta sinn og heimamenn tryggðu sér sæti í undanúrslitum Poweradebikarsins.



KR-Snæfell 111-104 (27-17, 18-30, 21-14, 17-22, 8-8, 20-13)

Stig KR: Joshua Brown 49/8 fráköst/5 stoðsendingar, Robert Lavon Ferguson 18/7 fráköst, Hreggviður Magnússon 16/4 fráköst, Dejan Sencanski 14/5 fráköst, Finnur Atli Magnusson 10/15 fráköst, Skarphéðinn Freyr Ingason 2, Martin Hermannsson 2.

Stig Snæfells: Quincy Hankins-Cole 23/10 fráköst/3 varin skot, Jón Ólafur Jónsson 22/10 fráköst, Marquis Sheldon Hall 16/4 fráköst/5 stoðsendingar, Ólafur Torfason 13, Hafþór Ingi Gunnarsson 13/4 fráköst, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 9/8 fráköst, Sveinn Arnar Davidsson 8/5 fráköst.

Hrafn: Sýndum stáltaugar í lokin
Hrafn Kristjánsson.Mynd/Stefán
"Það er gaman að geta boðið upp á svona leik og manni líður mjög vel að hafa unnið en það verður að vinna vinnuna sína. Það er margt í þessum leik sem við hefðum átt að gera betur. Ég var dragfúll á tímabili yfir mörgu sem við vorum að gera á tímabili," sagði Hrafn Kristjánsson þjálfari KR eftir leikinn í kvöld.

"Við héldum okkur ekki við leikskipulagið sem við lögðum upp í byrjun. Það var vitað mál að þeir myndu stíga upp eftir erfiða byrjun og við stóðumst það ekki nógu vel. Við hættum að stoppa þá varnarlega og þá dettur niður hraður leikur okkar. Það var eitthvað einbeitingarleysi sem kom upp hjá okkur en við sýndum stáltaugar undir lokin."

"Við vorum fyrirsjáanlegir á tímabili. Við vorum að rembast við að henda boltanum inn í teig þar sem þeir voru í villuvandræðum þar en þeir stóðu sig vel í því að standa og sleppa því að brjóta. Við hittum ekki og voru klaufalegir á tímabili. Við hefðum getað kastað þessu frá okkur, það var í raun bara kraftaverka þristur sem gaf okkur möguleika á að geta klárað þetta að lokum," sagði Hrafn og bætti þessu við um Joshua Brown.

"Hann er kvikur og kom sér á þá staði sem hann vildi. Þetta er strákur sem hefði í raun aldrei átt að verða atvinnumaður. Hann fékk ekki inn í skóla og hefur alltaf þurft að hafa fyrir sínu. Sumir stækka á sér lungun með þolæfingum en hann hefur stækkað í sér hjartað með þeim erfiðleikum sem hann hefur gengið í gegnum," sagði Hrafn sem á sér ekki óska mótherja í undanúrslitum. Hann vill umfram annað fá heimaleik.

Ingi Þór: Áttum að klára þetta
Ingi Þór Steinþórsson.Mynd/Stefán
"Þetta verður ekki grátlegra en þetta. Það var ótrúlegt skot í lok fyrri framlengingar sem bjargar þeim. Við hefðum átt að taka þetta," sagði Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells eftir leikinn.

"Við gerðum okkur þetta sjálfum mjög erfitt í upphafi fyrsta og þriðja leikhluta. Við vorum meðvitunarlausar til að byrja með en ég er stoltur af strákunum fyrir að koma til baka á þessum sterka heimavelli. Við vitum að við erum að koma hingað aftur á fimmtudaginn til að vinna en það er grátlegt að detta út úr bikarnum. Mér fannst við eiga meira skilið að vinna þennan leik en þeir," sagði Ingi Þór sem náði ekki að koma skilaboðum til sinna manna undir lok fyrri framlengingar áður en Brown jafnaði metin.

"Við áttum að brjóta og senda hann á línuna en ég náði ekki að kalla það til strákanna. Þetta var bölvaður grís. Hann spilaði fáránlega vel og var mjög góður, ég skil ekki hvað þessi gæi er að gera hérna."

"Við áttum að vera búnir að klára þetta í lok venjulegs leiktíma og í lok fyrri framlengingarinnar. Við höfðum öll tækifæri til þess en vorum ekki nógu klókir," sagði Ingi Þór sem segir ekkert hæft í þeim sögusögnum að Serbi sé á leið til liðsins og skaut föstum skotum á þau lið sem hafa nýverið styrkt sig með erlendum leikmönnum.

"Mér finnst lélegt þegar lið með bestu Íslendingana á landinu séu að hrúga að sér útlendingum, ég skil að lið úti á landi sem eru fámennari séu að þessu en reglurnar eru svona. Ef ég gæti þetta þá væri ég búinn að þessu," sagði Ingi Þór að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×