Körfubolti

Fyrirliðabandið tekið af Fannari

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fannar Freyr í leik með Stjörnunni.
Fannar Freyr í leik með Stjörnunni. Mynd/Anton
Körfuknattleiksdeild Stjörnunnar hefur ákveðið að Fannar Helgason verði ekki fyrirliði liðsins í ótilgreindan tíma vegna atviks sem átti sér stað í leik gegn Keflavík á dögunum.

Fannar var gefið að sök að hafa veitt Val Orra Valssyni, leikmanni Keflavíkur, olnbogaskot í oddaleik liðanna á fimmtudagskvöldið. Stjarnan vann leikinn í framlengingu og mætir Grindavík í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum í kvöld.

Keflvíkingar sendu frá sér yfirlýsingu í gær þar sem þess var óskað að forráðamenn Stjörnunnar myndu taka á þessu máli innan félagsins. Félagið ætlaði að bíða með að senda kæru inn til KKÍ þar til Stjarnan myndi bregðast við atvikinu sem átti sér stað í leiknum.

Stjörnumenn hafa nú sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

„Körfuknattleiksdeild Stjörnunnar harmar það atvik sem átti sér stað í oddaleik Stjörnunnar og Keflavíkur, milli Fannars Helgasonar, leikmanns Stjörnunnar og Vals Valsonar leikmanns Keflavíkur. Atvikið átti sér stað þegar leikmennirnir börðust um boltann og var óviljaverk af hálfu leikmanns Stjörnunnar. Hins vegar lítur deildin þetta mál alvarlegum augum þar sem slík atvik geta haft alvarlegar afleiðingar.

Tekið hefur verið á málinu innan Stjörnunnar, og hafa forráðamenn deildarinnar og þjálfarar átt samtal við leikmanninn og undirstrikað alvarleika málsins. Niðurstaðan er sú að Fannar mun tímabundið ekki bera fyrirliðabandið fyrir hönd Stjörnunnar.

Það er von Kkd Stjörnunnar að þar með sé þessu máli lokið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×