Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Þór - Grindavík 64-79

Henry Birgir Gunnarsson í Þorlákshöfn skrifar
Mynd/Eva
Grindavík er einu skrefi frá Íslandsmeistaratitlinum í körfubolta eftir magnaðan útisigur á Þór í Þorlákshöfn í kvöld. Grindavík er komið með 2-0 forskot í einvíginu.

Fyrri hálfleikur var jafn lengstum en Grindavík þó alltaf skrefi á undan og áttu góðan lokasprett sem skilaði þeim tíu stiga forskoti í leikhléi, 30-40.

Þórsarar hófu síðari hálfleik með miklum látum. Skoruðu fyrstu tólf stig hálfleiksins og komust yfir. Grindavík tók leikhlé og svaraði þessu áhlaupi með 13 stiga áhlaupi og náði aftur vænlegu forskoti.

Grindavík hélt áfram að bæta við það forskot og heimamenn áttu engin svör. Frábær frammistaða Grindvíkinga og verðskuldaður sigur hjá þeim.

J'Nathan Bullock var algjörlega magnaður í þessum leik og fátt sem getur stöðvað hann í þessum ham. Þegar hann er síðan kominn með Ryan Pettinella við hlið sér í frákastabaráttunni geta aðrir nánast farið út að tjalda. Þessir tveir leikmenn eru algjörlega hrikalegir.

Grindavík var líka með viljann að vopni og hafði allan tímann trú á sjálfu sér. Þeir brotnuðu ekki við mótlæti heldur bættu í með stæl. Það var meistarabragur á Grindavíkurliðinu í kvöld og spili það af sömu ákefð á sunnudag þá verður liðið Íslandsmeistari.

Það vantaði mikið upp á hjá Þór í kvöld. Þeir skíttöpuðu frákastaslagnum og svo máttu þeir engan veginn við því að lykilmenn eins og Govens, Henley og Guðmundur Jónsson voru víðsfjarri sínu besta. Allir þurfa að eiga toppleik til þess að Þór eigi möguleika í Grindavík.

Þórsarar hafa nú engu að tapa og þeir munu klárlega selja sig mjög dýrt í næsta leik. Grindvíkingar hafa gefið eftir þegar staða þeirra er vænleg í vetur en þeir geta nú sýnt að þeir hafi lært af þeim mistökum með því að klára næsta leik og verða meistarar með stæl.

Helgi Jónas: Vorum tilbúnir í slag

"Kraftur og liðsheild skóp þennan sigur. Menn voru tilbúnir í slag," sagði hinn líflegi þjálfari Grindvíkinga, Helgi Jónas Guðfinnsson, eftir leik en hann leyfði sér aldrei þessu vant að brosa.

Þó ekki of mikið enda er enn eitt mikilvægt skref eftir hjá deildarmeisturunum.

"Þetta áhlaup Þórs í upphafi seinni hálfleiks var líklega það besta sem gat komið fyrir okkur á þeim tímapunkti. Sem betur fer kom það ekki seinna í leiknum. Við höfðum tíma til þess að girða okkur í brók. Við gerðum það og rúmlega það.

"Ég veit ekki hvort löngunin er meiri hjá okkur en þeim. Við reynum að undirbúa okkur eins vel fyrir þessa leiki og við mögulega getum. Við löguðum mikið hér í kvöld frá því í síðasta leik og við verðum að gera enn betur í næsta leik. Kannski var löngunin meiri í kvöld en við verðum að sýna það á sunnudaginn að okkur langi í titilinn."

Grindvíkingar hafa átt það til í vetur að detta niður á lágt plan. Hefur liðið lært af því?

"Við höfum fengið nokkrar lexíur í vetur og sú síðasta var gegn Stjörnunni er við vorum komnir 2-0 yfir. Þá var hugarfarið og nálgunin fyrir þriðja leikinn léleg. Ég ætla rétt að vona að menn hafi lært af því og ég finn það hjá strákunum að við ætlum ekki að láta þetta gerast aftur."

Darri: Fráköstin drápu okkur

Darri Hilmarsson átti ágætan leik í liði Þórs í kvöld með 11 stig. Hann var brotinn en ekki bugaður eftur leik.

"Sóknarleikurinn var slakur í dag. Svo voru fráköstin að drepa okkur. Við áttum fínt áhlaup í byrjun seinni en þeir koma bara til baka. Körfubolti er leikur áhlaupa og menn þreytast við að þurfa stanslaust að koma til baka," sagði Darri en er þetta búið?

"Nei, engan veginn. Það þarf þrjá leiki til. Við höfum sýnt að við getum ýmislegt. Við höfum áður unnið í Grindavík í vetur. Ef við vinnum næsta leik er staðan bara 2-1 og við með heimaleik. Það er ýmislegt hægt.

"Ég held við höfum trúna til að koma til baka. Það kemur ekki til greina að gefast upp. Eina í stöðunni er að koma til baka og það ætlum við að gera."

Þór Þorlákshöfn-Grindavík 64-79 (15-17, 15-23, 18-18, 16-21)

Þór Þorlákshöfn: Blagoj Janev 15/6 fráköst, Darrin Govens 15/6 fráköst/6 stoðsendingar/5 stolnir, Darri Hilmarsson 11/6 fráköst, Baldur Þór Ragnarsson 9, Guðmundur Jónsson 7/8 fráköst, Joseph Henley 5/8 fráköst/3 varin skot, Grétar Ingi Erlendsson 2, Þorsteinn Már Ragnarsson 0, Emil Karel Einarsson 0, Erlendur Ágúst Stefánsson 0, Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 0, Vilhjálmur Atli Björnsson 0.

Grindavík: J'Nathan Bullock 27/9 fráköst, Þorleifur Ólafsson 16/7 fráköst/5 stoðsendingar, Jóhann Árni Ólafsson 11/6 fráköst, Páll Axel Vilbergsson 9/7 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 9/4 fráköst, Ryan Pettinella 5/4 fráköst, Giordan Watson 2/6 fráköst/7 stoðsendingar, Þorsteinn Finnbogason 0, Ómar Örn Sævarsson 0, Einar Ómar Eyjólfsson 0, Björn Steinar Brynjólfsson 0, Ármann Vilbergsson 0.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Jon Gudmundsson

Hér að neðan má lesa leiklýsingu frá blaðamanni Vísis í Þorlákshöfn.

Leik lokið | Þór-Grindavík 64-79 | Glæsilegur sigur hjá frábæru liði Grindavíkur. Þeir voru magnaðir í þessum leik.

4. leikhluti: Það er allt með Grindavík þessa stundina og tíminn er einfaldlega of naumur fyrir heimamenn. Grindavík er að fara heim með 2-0 forskot og hreðjatak á þessu einvígi. 60-77 og 2.30 mín eftir. Þór tekur leikhlé en ég er hræddur um að munurinn sé allt of mikill. Mögnuð frammistaða hjá Grindjánum.

4. leikhluti: Pettinella fer af velli með fimm villur. Búinn að skila flottu framlagi og vöðvum í leik Grindjána. Þór að taka sóknarfráköst loksins en ekki að klára sóknirnar. Það er dýrt. Eru að komast í fínar stöður en skotin vilja ekki detta. Þetta er farið að líta afar vel út hjá Grindavík. 56-72 og 4 mín eftir.

4. leikhluti: Heimamenn aðeins að sækja á en mikil vinna eftir. 56-67 og 6 mín eftir.

4. leikhluti: Bullock er að taka yfir þennan leik. Þórsarar ráða ekkert við hann. 52-67 og útlitið að verða dökkt hjá heimamönnum.

4. leikhluti: Helgi Jónas orðinn mjög æstur á línunni og tekur dansskref í hverri sókn og hverri vörn. Flíspeysan farin í gólfið enda steikjandi hiti í kofanum. Eins gott að það er nóg af vatni hér í hverju horni. Grindavík með vænlega stöðu, 48-62.

3. leikhluta lokið | Þór-Grindavík 48-58 | Algjörlega ótrúlegum leikhluta lokað og á endanum er staðan sú sama og í hálfleik - Grindavík er tíu stigum yfir.

3. leikhluti: Eftir 13 Grindavíkurstig í röð skoraði Govens fyrir Þórsara. 44-53.

3. leikhluti: Grindavík er búið að skora 11 stig í röð og Þór, sem skipti um buxur í leikhléi, er ráðalaust sem stendur. Ótrúlegar sveiflur. 42-51 og 3 mín eftir af þriðja leikhluta.

3. leikhluti: Helgi Jónas, þjálfari Grindavíkur, tók eðlilega leikhlé eftir þennan sprett heimamanna. Hans menn hafa svarað með sjö stigum í röð. Þetta er að verða leikur hinna miklu áhlaupa. 42-47 fyrir Grindavík.

3. leikhluti: Þeir gerðu reyndar gott betur og eru búnir að skora 12 fyrstu stigin og eru komnir yfir 42-40. Grindavík ekki enn búið að skora í síðari hálfleik og 4 mínútur búnar af honum. Ótrúlegar upphafsmínútur og DJ-inn hendir Kiss á fóninn. Það er nákvæmlega allt að frétta.

3. leikhluti: Flott áhlaup hjá heimamönnum hér í upphafi seinni. Skora sjö fyrstu stigin og voru nálægt því að jafna með þrist. 37-40.

3. leikhluti: Þórsarar byrja á þrist. Hafa væntanlega fengið rándýran hárblástur frá Benna í hálfleik. Það er allt undir hjá heimamönnum. Tapi þeir er verkefnið nánast ómögulegt. 35-40. Game on.

Hálfleikur | Þór-Grindavík 30-40 | Gestirnir verið skrefinu á undan nær allan tímann og eru verðskuldað með forystu í hálfleik. Grindjánar miklu grimmari undir körfunni og eru að slátra heimamönnum í fráköstum. Hafa náð fjölda sóknarfrákasta sem hefur skilað þeim stigum. Þórsarar verða að þétta raðirnar í seinni hálfleik og einfaldlega frákasta meira. Annars eiga þeir ekki möguleika. Þeir eiga einnig inni í sókninni. Leikurinn annars hin besta skemmtun og stórkostleg stemning í húsinu.

2. leikhluti: Jóhann Árni með þrist. Margir að leggja hönd á plóg hja Grindjánum sem eru komnir með tíu stiga forskot, 28-38.

2. leikhluti: Það var eins og við manninn mælt. Guðmundur hendir í þrist en Bullock svarar. Magnaður leikur hjá Bullock. Algjörlega magnaður. Benedikt þarf að finna lausnir og tekur leikhlé. 28-33 og rúmar 3 mín í hálfleik.

2. leikhluti: Þá loksins datt þristur hjá Govens. Þór þarf meira af þessu. Gummi Jóns þarf einnig að finna ryþmann en ekki nógu heitur enn sem komið er. Fráköstin sem fyrr Grindvíkinga og Þórsarar verða að fara að taka þau niður. 25-29 og 4.45 mín eftir.

2. leikhluti: Það er barist gríðarlega hart um hvern einasta bolta. Spennustigið hátt í húsinu og flestir æstir. Kalli Bjarni þó pollrólegur með hendur í vösum. Govens ekki kominn í gang hjá Þórsurum og munar um minna. Grindavík aðeins að herða tökum, 20-26 og 7 mín eftir af hálfleiknum.

2. leikhluti: Dagur með líklega ljótustu þriggja stiga körfu í sögu úrslitakeppninnar. Út af kanti í spjaldið og niður. Hún telur samt jafn mikið. Heimamenn hanga í pilsfalinum á Grindjánum, 18-20.

1. leikhluta lokið | Þór-Grindavík 15-17 | Flott byrjun á þessum leik. Ekki sama rosalega hittni og stigaskor og var í fyrsta leiknum. Bæði lið búin að þétta varnarleikinn og þetta verður örugglega jafnt allt til enda.

1. leikhluti: Kjötfjöllin Bullock og Pettinella safna sóknarfráköstum og Benni Gumm brjálast út í Henley. Sá hristir bara hausinn og lái honum hver sem vill. Það er ekkert hægt að ráða við svona skrokka.

1. leikhluti: Darri með ískaldan þrist og kemur Þórsurum yfir í fyrsta skipti, 13-12 og 2.30 mín eftir.

1. leikhluti: Massaðasti maðurinn í sögu íslenska körfuboltans, Ryan Robocop Pettinella, fær dæmdan á sig ruðning. Hann er svo massaður að hann tók varla eftir því að hann hefði nánast ýtt Janev upp í stúku. Jafnræði með liðunum sem stendur. 10-12 og gengur illa að skora.

1. leikhluti: Bullock að byrja sterkt fyrir Grindavík sem eru ekkert sérstök tíðindi fyrir heimamenn. Þeir þurfa að bæta varnarleik sinn mikið frá fyrsta leik liðanna. Benni Gumm kominn með reiða svipinn sinn og lærisveinarnir svara. 10-12 fyrir Grindavik.

1. leikhluti: Bullock með fyrstu troðslu kvöldsins og hún var kraftmikil. Grindvíkingar ívið beittari á upphafsmínútunum. 5-10 fyrir þá.

1. leikhluti: Helgi Jónas geispar svona rétt áður en leikurinn hófst. Menn geispa oft þegar þeir eru spenntir. Heimamenn hafa tekið völdin í stúkunni líkt og svo oft áður. Fyrstu skot detta ekki niður en Siggi Þorsteins brýtur múrinn.

Fyrir leik: Það eru úrvalsdómararnir Sigmundur Herbertsson og Jón Guðmundsson sem halda þéttingsfast um flauturnar í kvöld. Tölfræðiundrið Óskar Ófeigur er svo á ritaraborðinu þannig að þetta verður ekki mikið dýrara.

Fyrir leik: Allt slökkt, Hells Bells á blastinu og heimamenn kynntir til leiks. Mögnuð stemning í Vatnshöllinni hans Jóns Ólafs. Hann mætti samt alveg henda einni umferð af málningu á höllina sína. Hún er farin að láta á sjá.

Fyrir leik: Verið að kynna liðin til leiks. Stuðningsmenn Þórs snúa baki í völlinn. Grindvíkingar ætla aftur á móti þykjast lesa Fréttablaðið er Þórsarar verða kynntir. Allt þekkt brögð í bransanum.

Fyrir leik: Það er afar áhugavert að hluti af upphitunarprogrami körfuboltamanna er að fara svona 18 sinnum inn í klefa. Þetta er hefð sem sker sig úr. Liðin komin aftur á völlinn. Björn Steinar ætlaði að kveikja í þessu með troðslu en því miður, gekk ekki að þessu sinni.

Fyrir leik: Þórsarar hafa lofað ljósashowi og stemningu þegar leikurinn fer í gang. Af þeim sökum er aðeins kveikt á hluta ljósanna í upphitun. Af hverju það hjálpar er ekki enn komið svar við.

Fyrir leik: Það er enginn skortur á stórstjörnum á þessum leik. Hér eru til að mynda ekki minni stjörnur en sjálfur Kalli Bjarni sem ætlar að styðja sína menn til sigurs. Þess má geta að Kalli syngur Grindavíkurlagið og gerir það að sjálfsögðu með bravör. Verður gaman að fylgjast með Kalla og félögum á pöllunum en þeir hafa farið vel af stað.

Fyrir leik: Plötusnúðurinn í Þorlákshöfn virðist vera með marga persónuleika því hér ægir öllum tónlistarstefnum saman. Til að mynda var farið úr AC/DC yfir í Bláan Opal. Það verða seint talin góð skipti.

Fyrir leik: Sigurður Þorsteinsson er sem fyrr í gömlu Grindavíkurfótboltasokkunum. Það áttu allir leikmenn liðsins reyndar að gera en aðeins þrír leikmenn Grindavíkur eru í uppháum sokkum. Hinir eru Ómar Sævarsson og J'Nathan Bullock sem oft er kallaður Predator. Vinur hans Robocop eða Ryan Pettinella er aftur á móti í stuttum hvítum sokkum. Ekki alveg jafn dýrt.

Fyrir leik: Ólafur Ólafsson Grindvíkingur er mættur á hækjunum í búning að styðja sína menn. Það var vart að sjá mann á ferli í Þorlákshöfn áðan. Allir á leiðinni á völlinn nema mótorhjólagaur sem fór í Bónus og heim aftur. Hann horfir væntanlega á leikinn á Stöð 2 Sport.

Fyrir leik: Græni drekinn er búinn að væta kverkarnir með söngolíu fyrir utan og er byrjaður að telja í. Hér verður væntanlega svívirðilega góð stemning í kvöld. Vatnshöllin, eða Ljósbekkurinn eins og sumir vilja kalla húsið, er mikil gryfja og hér tapa heimamenn sjaldan. Þeir mega alls ekki við því í kvöld til þess að halda einvíginu í gangi.

Fyrir leik: Komiði sæl og blessuð. Vísismenn eru mættir í Þorlákshöfn sem skartar sínu fegursta. Búið að metta svanga munna og Iceland Glacial-brúsi kominn í hönd. Húsið er nánast fullt hálftíma fyrir leik og Grindjánar að mæta vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×