Golf

Að birta til hjá McIlroy - efstur eftir 2 daga í Memphis

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rory McIlroy.
Rory McIlroy. Mynd/Nordic Photos/Getty
Rory McIlroy er efstur á St Jude Classic golfmótinu í Memphis þegar keppni er hálfnuð sem er mikil breyting frá gengi Norður-Írans að undanförnu. Fyrir þetta mót hafi McIlroy ekki komist í gegnum niðurskurðinn á þremur mótum í röð.

Rory McIlroy hefur leikið fyrstu 36 holurnar á sjö höggum undir pari og er með eins högg forskot á þrjá Bandaríkjamenn en þessi 23 ára gamli kylfingur endaði annan hringinn á því að fá þrjú fugla á síðustu fjórum holunum.

Rory McIlroy hefur titil að verja eftir eina viku þegar opna bandaríska mótið hefst og það gleðjast því margir yfir því að sjá hann finna formið sitt á nýjan leik.

McIlroy spilaði fyrsta hringinn á 68 höggum og annan hringinn á 65 höggum. Hann fékk meðal annars örn á þriðju í gær og var einnig nálægt því að ná öðrum erni seinna á hringnum.

„Aðalmarkmiðið mitt var að sjá einhverja bætingu og vera með í baráttunni. Það er gaman að sjá nafnið mitt meðal efstu manna og gott að fá að vera með á helginni. Ég hef góða möguleika á því að gera góða hluti á þessu móti, þetta ætti að vera góð reynsla fyrir mig og flottur undirbúningur fyrir opna bandaríska mótið í næstu viku. Ég er ánægður með hvernig ég er að spila og hversu vel mér gengur að stjórna golfboltanum," sagði Rory McIlroy.

Efstu menn eftir 36 holur á St Jude Classic golfmótinu:

-7: R McIlroy

-6: JB Holmes, J Maggert, K Stadler

-5: J Merrick, C Campbell, K Kisner

-4: K Duke, D Love, Seung-Yul Noh, P Harrington




Fleiri fréttir

Sjá meira


×