Körfubolti

Darrel Lewis til Keflavíkur: Hefur saknað Nonnabita

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Darrel Lewis í leik á móti KR.
Darrel Lewis í leik á móti KR.
Darrel Lewis spilar með Keflavík í Dominosdeildinni á næsta tímabili en Lewis er íslenskur ríkisborgari sem getur spilað bæði skotbakvörð og lítinn framherja. Hann var frábær með Grindvíkingum á árunum 2002 til 2005 en hefur síðan spilað á Ítalíu og í Grikklandi. Þetta kemur fram á heimasíðu Keflavíkur.

Darrel Lewis lék þrjú tímabil með Grindavík á árunum 2002 til 2005 og þá með 26,6 stig, 7,5 fráköst og 5,5 stoðsendingar að meðaltali. Lewis hefur síðan leikið á Ítalíu og í Grikklandi en á síðasta tímabili lék hann með OF Irakleio í grísku 2. deildinni þar sem hann var meði tæp 15 stig í leik. Darrel Lewis er orðinn 36 ára gamall.

Það má finna viðtal við Darrel Lewis á heimasíðu Keflavíkur. „Ég hlakka til að spila aftur á Íslandi. Ég hef alltaf ætlað mér að koma aftur eftir að hafa notið velgengni þar í nokkur ár. Það mun eflaust verða svolítið öðruvísi að klæðast Keflavíkurbúningnum í ljósi þess að Keflavík var alltaf erfiðasti mótherji minn," sagði Darrel Lewis.

„Ég hef breytt leik mínu mikið síðan ég spilaði með Grindavík. Ég myndi segja að eftir að hafa spilað í mismunandi löndum sé leikstíll minn orðinn mun þróaðri og fjölbreyttari," sagði Darrel Lewis en hvað verður það fyrsta sem Darrel mun gera þegar hann kemur til Íslands?

„Ég mun byrja á því að þakka Guði fyrir að hafa komist öruggur á leiðarenda. Síðan mun ég halda til Reykjavíkur á veitingastað sem selur samlokur, sem ég held að heiti „Nonnabiti", því ég hef saknað hans."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×