Golf

Birgir Leifur: Ég hafði heppnina með mér

Sigurður Elvar Þórólfsson í Leirdalnum skrifar
„Þetta er heilmikil törn og mikið álag sem fylgir þessu móti. Ég er ánægður með margt hjá mér, tveir leikir af fjórum hafa fram til þessa verið mjög góðir," sagði Birgir Leifur Hafþórsson atvinnukylfingur úr GKG í dag eftir að hann komst í undanúrslit Íslandsmótsins í holukeppni.

Birgir lagði félaga sinn úr GKG, Alfreð Brynjar Kristinsson, í átta manna úrslitum, 1/0 en Alfreð byrjaði með látum og vann fyrstu þrjár holurnar gegn Birgi.

Íslenska lögfræðistofumótið er þriðja stigamót ársins á Eimskipsmótaröðinni og tóku 32 karla þátt og 15 konur.

Birgir Leifur og Hlynur Geir Hjartarson úr GOS mætast í undanúrslitum í fyrramálið. Haraldur Franklín Magnús úr GR og Rúnar Arnórsson úr Keili leika í hinum undanúrslitaleiknum. Úrslitaleikurinn fer fram eftir hádegi á sunnudag á Leiralsvelli.

„Ég hef ekki lent undir fram til þessa á mótinu og mér fannst það sterkt hjá mér að koma til baka eftir þessa byrjun. Heppnin var svo sannarlega með mér í mörg skipti á þessum hring en ég hef oft leikið betur. Ég sló nokkur upphafshögg sem voru ekki alveg nógu góð en ég var frekar heppinn með lendinguna, t.d. á 12. slapp ég naumlega við vatnstorfæruna og ég sló boltann útaf á 16.

"Þetta var barátta í dag, ég fann fyrir þreytu í síðasta leiknum og einbeitingin var því ekki alltaf til staðar. Ég var ánægður með hve vel mér gekk að tryggja púttin eftir vippin, það var að skila sér í dag," sagði Birgir en hann hafði ekki mikinn tíma til þess að spjalla eftir sigurinn í dag.

Hann var á hraðferð í útskrift úr golfkennaraskóla PGA og GSÍ. Hlynur Geir Hjartarson var í sömu stöðu og Birgir Leifur en þeir mætast í undanúrslitaleiknum í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×