Körfubolti

Helgi Már og Brynjar komnir heim í KR - eiga bara eftir að skrifa undir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helgi Már og Brynjar Þór fagna hér þegar Fannar Ólafsson lyftir Íslandsbikarnum vorið 2009.
Helgi Már og Brynjar Þór fagna hér þegar Fannar Ólafsson lyftir Íslandsbikarnum vorið 2009. Mynd/Vilhelm
Landsliðsmennirnir Helgi Már Magnússon og Brynjar Þór Björnsson hafa ákveðið að spila með KR í í Domino´s deildinni í körfubolta á næstu leiktíð en þetta staðfesti Böðvar Guðjónsson, formaður körfuknattleiksdeildar KR við Íþróttadeild Vísis og Fréttablaðsins.

Böðvar segir að Helgi og Brynjar eigi bara eftir að skrifa undir en að allt annað sé klárt..

Þetta er gríðarlegur liðstyrkur fyrir KR-liðið en báðir þessir leikmenn eru uppaldir KR-ingar og því á leiðinni heim í Vesturbæinn. Helgi Már er 30 ára framherji en Brynjar er 24 ára skotbakvörður.

Helgi Már hefur leikið í Svíþjóð undanfarin þrjú tímabil með Solna, Uppsala og 08 Stockholm en Brynjar Þór reyndi fyrir sér með Jämtland í sænsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. Báðir urðu þeir Íslandsmeistarar með KR þegar þeir spiluðu síðast í íslensku deildinni, Helgi veturinn 2008-89 og Brynjar veturinn 2010-11.

Helgi Már var með 13,3 stig og 5,5 fráköst að meðaltali í sænsku deildinni á síðustu leiktíð en hann hitti úr 41,4 prósent þriggja stiga skota sinna og setti alls niður 75 þrista í leikjum 40.

Brynjar Þór skoraði 10,4 stig að meðaltali á 25,1 mínútum í leik en hann hitti úr 40,8 prósent þriggja stiga skota sinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×