Golf

Johnson tryggði sér sigur eftir bráðabana

Zach Johnson með sigurlaunin á John Deere meistaramótinu.
Zach Johnson með sigurlaunin á John Deere meistaramótinu. AP
Bandaríski kylfingurinn Zach Johnson fagnaði sigri á John Deere meistaramótinu á PGA mótaröðinni í golfi í gær. Johnnson hafði betur gegn landa sínum Troy Matteson í bráðabana en þeir voru báðir 20 höggum undir pari að loknum 72 holum.

Johnson lék lokahringinn á 65 höggum eða sex höggum undir pari, á meðan Matteson lék á 69 höggum sem var versti hringur hans á mótinu.

Þeir léku 18. braut vallarins og fengu báðir skramba (+2) í fyrstu tilraun. Johnson fékk fugl (-1) í annarri tilraun á meðan Matteson lék á fjórum höggum eða pari.

Með sigrinum er Johnson í fimmta sæti á Ryderlistanum fyrir bandaríska úrvalsliðið sem valið verður í haust. Matteson fékk keppnisrétt á opna breska meistaramótinu sem hefst á fimmtudaginn.

Scott Piercy endaði í þriðja sæti á 18 höggum undir pari og John Senden varð fjórði á 17 höggum undir pari ásamt Steve Stricker.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×