Körfubolti

Helgi Már ráðinn spilandi þjálfari KR

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Helgi Már Magnússon hefur verið ráðinn spilandi þjálfari meistaraflokks karla í körfuknattleik hjá KR.

Gunnar Sverrisson, fyrrum þjálfari ÍR, verður aðstoðarþjálfari Helga Más en samningur við þá félaga er til tveggja ára.

Helgi Már er uppalinn KR-ingur en hefur undanfarin þrjú ár leikið sem atvinnumaður í Svíþjóð. Hann var síðast á mála hjá 08 í Stokkhólmi. Þar var hann með 13,3 stig og 5,5 fráköst að meðaltali í leik að því er fram kemur á KR.is.

Gunnar Sverrisson hefur þjálfað ÍR í efstu deild karla undanfarin tvö tímabil en þar áður Þór á Akureyri. Hann mun einnig koma að yngri flokka þjálfun hjá KR.

„Við erum virkilega ánægðir með þessa ráðningu og Helgi var okkar fyrsta val enda með mikla reynslu sem leikmaður og mikill leiðtogi. Þá vildum við fá innanbúðarmann í verkið og Helgi þekkir hvern krók og kima í DHL höllinni," segir Böðvar Guðjónsson, formaður körfuknattleiksdeildar KR á heimasíðu félagsins.

„Það er líka gríðarlegur fengur í Gunnari sem aðstoðarþjálfara en hann þekkir leikinn inn og út og fellur vel inn í KR fjölskylduna."

Helga Má, sem varð Íslandsmeistari með KR árið 2009, líst vel á veturinn.

„Ég er mjög stemmdur fyrir vetrinum. Það er virkilega gaman að koma heim og fá tækifæri til að þjálfa þennan sterka hóp. KR er svakalega metnaðarfullur klúbbur sem sést best á allri umgjörð og stemmingu í kringum liðið, og með þennan hóp sem við erum með núna þá höfum við að sjálfsögðu sett stefnuna á alla þá titla sem í boði eru," segir Helgi Már á heimasíðu KR.

KR-ingar féllu úr leik í undanúrslitum á Íslandsmótinu á síðastliðnu tímabili gegn Þór frá Þorlákshöfn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×