Fótbolti

Aron: Hefði átt að skora eitt í viðbót | Myndband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron, til hægri, ásamt Birni Bergmanni Sigurðarsyni í leik með íslenska U-21 landsliðinu.
Aron, til hægri, ásamt Birni Bergmanni Sigurðarsyni í leik með íslenska U-21 landsliðinu. Nordic Photos / Getty Images
Aron Jóhansson skoraði tvívegis í 3-2 sigri AGF á Midtjylland í kvöld en var samt óánægður með hafa ekki náð þrennunni. Aron lagði þó upp þriðja mark AGF í leiknum.

Aron hefur nú skorað átta mörk í síðustu þremur leikjum AGF og er orðinn markahæsti leikmaður dönsku úrvalsdeildarinnar.

„Ég hefði átt að skora eitt til viðbótar," sagði Aron við danska fjölmiðla eftir leikinn í kvöld. Hann átti þá við atvik undir lok fyrri hálfleiks þar sem hann kom sér í góða stöðu en náði ekki að koma skoti að marki.

Staðan í leiknum var þá 1-1 en AGF skoraði tvívegis í síðari hálfleik áður en Midtjylland minnkaði muninn í uppbótartíma. Aron kom AGF í 2-1 forystu í seinni hálfleik.

„Sem betur fer náði ég að skora annað mark og sem betur fer unnum við leikinn," sagði Aron sem hafði ekki reiknað með því að vera markahæsti leikmaður deildarinnar.

„Stundum eru hlutirnir fljótir að breytast í fótboltanum."

Mörkin úr leiknum má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×