Golf

Snedeker fékk 1,2 milljarða í bónus

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Bandaríkjamaðurinn Brendt Snedeker stóð uppi sem sigurvegari á PGA-mótaröðinni í golfi eftir að hafa unnið Tour Championship-mótið í gær.

Fyrir árangurinn fékk Snedeker hinn svokallaða FedEx-risavinning en hann telur samtals tíu milljónir dollara eða 1,2 milljarða króna.

Snedeker er 32 ára gamall og var með forystuna fyrir lokahringinn ásamt Justin Rose. Snedeker hélt ró sinni og spilaði á 68 höggum í gær en Rose á 71 höggi.

Snedeker vann samtals á tíu höggum undir pari en Rose kom næstur á sjö undir pari.

Alls áttu fimm kylfingar möguleikar á risapottinum með sigri í nótt. Hinir voru Rory McIlroy, Tiger Woods, Nick Watney og Phil Mickelson.

„Þetta er hálfgerð bilun," sagði Snedeker eftir sigurinn í gær og virtist varla vita hvað hann ætti að gera við svo mikinn pening.

„Ég hef keyrt á sama bílnum í fjögur og hálft ár. Ég hef keyrt hann 39 þúsund kílómetra," sagði hann en hann fékk rúma milljón dollara til viðbótar fyrir sigurinn á mótinu í gær.

„Ég þekki engan sem þarf á ellefu milljónum dollara að halda. Við ættum að geta notað þennan pening til að hjálpa þeim sem þurfa á því að halda."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×