Fótbolti

Malmö heldur sínu striki

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Þóra Björg Helgadóttir.
Þóra Björg Helgadóttir. Mynd/Stefán
LdB Malmö, lið Þóru Helgadóttur og Söru Bjarkar Gunnarsdóttur, náði fimm stiga forystu á toppi sænsku úrvalsdeildarinnar með 3-2 sigri á Vittsjö þar sem sigurmarkið kom á síðustu mínútu leiksins. Alls voru þrír leikir í deildinni í dag og komu íslenskar knattspyrnukonur við sögu í þeim öllum.

Sara og Þóra léku allan leikinn að venju fyrir Malmö sem komst í 2-0 með tveimur mörkum rétt fyrir leikhlé. Allt benti til þess að Vittsjö næði að stela stigi þegar Sjödahl skoraði í tvígang seint í seinni hálfleik en Þjóðverjinn Anja Mittag tryggði Malmö mikilvægan sigur með marki rétt fyrir leikslok.

Malmö er nú með 45 stig, fimm stigum meira en Tyresö sem á leik til góða gegn AIK á þriðjudaginn.

Hallbera Gísladóttir lék allan leikinn fyrir Piteå sem tapaði 1-0 á heimavelli fyrir Jitex. Jitex lyfti sér upp fyrir Piteå í deildinni með sigrinum en liðin eru jöfn að stigum í áttunda og níunda sæti, níu stigum frá fallsæti.

Vandræði Djurgården á botni deildarinnar halda áfram. Liðið tapaði 2-0 fyrir Umeå á útivelli í dag en Guðbjörg Gunnarsdóttir varði mark Djurgården og Katrín Jónsdóttir lék í vörninni. Djurgården er sjö stigum frá öruggu sæti í deildinni og stigi á eftir AIK í næst neðsta sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×