Fótbolti

Elísabet missir sinn besta leikmann til Frakklands

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kosovare Asllani.
Kosovare Asllani. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sænska landsliðskonan Kosovare Asllani er á leiðinni til Frakklands þar sem að hún mun skrifa undir tveggja ára samning við franska félagið Paris Saint-Germain. Þjálfarinn Elísabet Gunnarsdóttir horfir þar á eftir mjög sterkum leikmanni.

Asllani er algjör lykilmaður hjá Kristianstad og er bæði búin að skora mest og leggja upp flest hjá liðinu á þessu tímabili. Hún var á sínu fyrsta tímabili með liðinu eftir að hafa spilað áður með Linköping í mörg ár.

„Þetta er rosalega gott tækifæri fyrir mig enda ætlar PSG sér stóra hluti i framtíðinni," sagði Kosovare Asllani í samtali við sænska Sportbladet.

„Við vorum búnir að ná í karla Zlatan og nú náðum við í kvenna Zlatan líka," sagði forráðamaður PSG við Sportbladet. Frakkarnir hafa metnaðarfull markmið hjá konunum alveg eins og hjá körlunum. Asllani hefur verið líkt við Zlatan Ibrahimovic enda frábær leikmaður sem á líka ættir að rekja til Balkanskagans.

„Þetta er mikilvægt skref fyrir "Kosse" og ég vil ekki standa í vegi fyrir henni," sagði Elísabet í fréttatilkynningu frá Kristianstad.

Kosovare Asllani hefur spilað sinn síðasta leik með Kristianstad og verður ekki með liðinu á móti Kopparbergs/Göteborg um helgina. Íslensku landsliðskonurnar Margrét Lára Viðarsdóttir, Katrín Ómarsdóttir og Sif Atladóttir verða hinsvegar væntanlega klárar í slaginn og nú reynir meira á Margréti Láru víst að liðið er búið að missa aðalframherja sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×