Fótbolti

Gunnar Heiðar með stórleik - skoraði tvö og lagði upp tvö

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Heiðar Þorvaldsson.
Gunnar Heiðar Þorvaldsson. Mynd/Nordic Photos/Getty
Gunnar Heiðar Þorvaldsson átti flottan leik í kvöld þegar lið hans IFK Norrköping fór illa með GAIS í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Gunnar Heiðar skoraði tvö mörk sjálfur og lagði síðan upp tvö önnur mörk fyrir félaga sína. Norrköping vann leikinn á endanum 7-2.

IFK Norrköping fór upp í fimmta sætið með þessum sigri en liðið er sex stigum á eftir Malmö sem er í sætinu fyrir ofan.

Gunnar Heiðar skoraði fyrsta mark leiksins á 12. mínútu og Norrköping var síðan 4-1 yfir í hálfleik eftir að Gunnar lagði upp mark fyrir Nikola Tkalcic tveimur mínútum fyrir hálfleik. Gunnar Heiðar átti síðan einnig mikinn þátt í fimmta markinu í upphafi seinni hálfleiks sem var sjálfsmark hjá GAIS. Gunnar Heiðar skoraði síðan sjötta mark Norrköping og annað mark sitt á 64. mínútu leiksins.

Gunnar Heiðar hefur þar með skorað 13 mörk í 24 leikjum með Norrköping á þessu tímabili en hann skoraði tvö mörk í leiknum á undan þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við AIK Solna. Eyjamaðurinn er því búinn að skora tvennu í tveimur leikjum í röð.

Gunnar Heiðar er þar með kominn fram úr Alfreð Finnbogasyni sem skoraði 12 mörk í 17 leikjum með Helsingborg áður en hann fór til Heerenveen í Hollandi. Báðir eru þeir í hópi markahæstu leikmanna sænsku deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×