Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: KR - Tindastóll 90-69

Benedikt Grétarsson skrifar
Brynjar Þór Björnsson
Brynjar Þór Björnsson Mynd/Daníel
KR sigraði Tindastól örugglega 90-69 í DHL-höllinni í kvöld. Heimamenn voru grimmari allan leikinn og unnu að lokum mjög sanngjarnan sigur. Varnarleikur KR var sterkur lengstum í leiknum og lagði grunninn að sigrinum.

Jafnræði var með liðunum framan af leik en KR leiddi með fjórum stigum að loknum fyrsta leikhluta, 24-20. Heimamenn settu í þriðja gír í öðrum leikhluta og létu boltann ganga vel á milli sín í sókninni. KR hafði tólf stiga forystu í hálfleik, 47-35 og hefðu í raun átt að vera með enn betri tök á leiknum.

Síðari hálfleikur varð aldrei spennandi. KR-ingar héldu undirtökunum allan tímann og lönduðu að lokum öruggum 21 stiga sigri, 90-69.

KR spilaði þennan leik með miklum ágætum og breiddin í liðinu reyndist of mikil fyrir gestina. Þjálfarinn Helgi Már var sterkur með 17 stig og 12 fráköst og litli bróðir hans, Finnur Atli bætti við 17 stigum. Danero Thomas vann vel fyrir liðið í vörn og sókn og endaði með 14 stig.

Tindastóll mætti ofjörlum sínum í kvöld en hrósa verður liðinu fyrir góða baráttu allan tímann. Fimm leikmenn liðsins gerðu 12 stig en þeirra bestur var var George Valentine sem tók að auki 10 fráköst. Hann gerði sig þó sekan um slæm mistök í fyrri hálfleik sem kostuðu hann fjórðu villuna fyrir kjaftbrúk og þurfti að dúsa á bekknum lengi eftir það.

Helgi Már: Við viljum nota breiddinaHelgi Már Magnússon, spilandi þjálfari KR, átti góðan leik í kvöld og gat leyft sér að brosa eftir leik

„Þetta er akkúrat það sem við viljum gera, keyra vel á breiddinni á liðinu. Ég er mjög sáttur við mína menn og allir sem einn lögðu sig 100% fram í kvöld."

Athygli vakti að Helgi fékk ekki að tylla sér á bekkinn í fyrri hálfleik, þrátt fyrir að vera með 3 villur á bakinu. Það skyldi þó aldrei vera að þjálfarinn væri á einhverjum sérkjörum hjá Gunnari Sverrissyni, aðstoðarþjálfara?

„Jú, er það ekki bara? Nei nei, Martin meiddist og þá þurfti ég að spila meira en vanalega, það er nú skýringin," sagði Helgi brosandi að lokum.

Gunnar: Við vorum ekki undir neinu fargiGunnar Sverrisson, aðstoðarþjálfari KR, blés á þá skoðun blaðamanns að þungu fargi hafi verið létt af KR-ingum eftir þennan leik. „Við vorum ekkert undir þessu fræga fargi eins og margir vilja meina. Ég er gríðarlega sáttur við leikmenn, að mæta hér í kvöld og berjast eins og ljón alveg frá fyrstu mínútu."

Gunnar segir að DHL-höllin eigi tvímælalaust að vera erfiður staður fyrir aðkomulið í vetur.

„Menn verða að hafa fyrir hlutunum hérna í þessu húsi og þessi leikur var fín byrjun. Það voru allir að spila vel og ég er sáttur við framlag erlendu leikmannanna í kvöld. Ég er reyndar ekkert að stressa mig á því hvaðan menn koma. Við erum einfaldlega með góðan hóp af leikmönnum og allir verða að skila sínu, óháð ríkisfangi."

Bárður: Einbeitingarleysi kostaði okkur leikinnBárður Eyþórsson var reiðubúinn með skýringar á tapi sinna manna. „Við vissum að þetta yrði líklega frekar erfitt hér í kvöld og undirbjuggum okkur þannig."

„Við erum auðvitað með ákveðin hlaup í sókninni en ítrekað hendum við boltanum frá okkur vegna skorts á einbeitingu. Það fór bara með leikinn fyrir okkur. "

George Valentine sat lengstum á bekknum eftir að hafa fengið klaufavillu og síðan tæknivillu í kjölfarið.

Bárður viðurkenndi að það hefði verið of stór biti fyrir Tindastól. „Þessi villuvandræði hans voru svo sannarlega ekki að hjálpa okkur. Við erum ekki með hávaxið lið og megum ekki við því að missa okkar stærsta mann í villuvandræði."

KR-Tindastóll 90-69 (24-20, 23-15, 23-21, 20-13)

KR: Finnur Atli Magnusson 17/5 fráköst, Helgi Már Magnússon 17/12 fráköst, Danero Thomas 14/5 stoðsendingar, Brynjar Þór Björnsson 12/7 fráköst, Ágúst Angantýsson 12, Keagan Bell 8/4 fráköst/6 stoðsendingar, Jón Orri Kristjánsson 4, Martin Hermannsson 3, Kormákur Arthursson 3.

Tindastóll: George Valentine 12/10 fráköst, Þröstur Leó Jóhannsson 12, Helgi Rafn Viggósson 12, Friðrik Hreinsson 12/3 varin skot, Isaac Deshon Miles 12, Sigtryggur Arnar Björnsson 5, Svavar Atli Birgisson 2, Helgi Freyr Margeirsson 2.

Leik lokið: 90-69. Öruggur sigur heimamanna og sennilega þungu fargi létt af Helga Má, spilandi þjálfara liðsins. Nánari umfjöllun og viðtöl koma inn á Vísi síðar í kvöld.

38.mínúta: 84-64. Þetta er komið hjá KR. Sanngjarnt í meira lagi.

36.mínúta: 81-64. Rándýr þristur hjá Thomas og heimamenn eru skrefi nær sigri.

35.mínúta: 78-64. Nú er það Finnur Atli sem þarf að setjast hjá KR með 5 villur. Nú er lag hjá gestunum, tveir stærstu menn heimamanna eru farnir af velli.

33.mínúta: 74-62. Það vantar meiri skynsemi í leik Stólanna. Þeir eru að gera góða hluti þegar þeir láta boltann ganga á milli manna en detta þess á milli of mikið í fljótfærnisleg skot.

31.mínúta: 72-58. Jón Orri Kristjánsson yfirgefur völlinn með 5 villur.

3.leikhluta lokið: 70-56. Ekkert sem bendir til annars en þægilegs heimasigurs. Við skulum samt ekki afskrifa Skagfirðinga alveg strax.

29.mínúta: 67-52. Heimamenn eru aftur komnir í þægilega stöðu. Þeir geta samt ekki leyft sér að slaka á, fjórir leikmenn þeirra eru með 4 villur.

27.mínúta: 60-49. Þetta er skárra hjá Sauðkræklingum. Þeir eru að berjast vel og eru ennþá inni í þessum leik.

25.mínúta: 55-43. Fimm stig í röð hjá gestunum og Gunnar aðstoðarþjálfari KR tekur strax leikhlé. Stólarnir eru að hanga á lífi með nokkrum góðum þristum en vantar meiri fjölbreytni í sóknarleik sinn.

23.mínúta: 55-38. Heimamenn leika á als oddi. Mjög óeigingjarnur körfubolti skilar þeim auðveldum körfum. Stólarnir eru að sama skapi í tómu tjóni og virðast ekki geta stillt upp í eitt einasta leikkerfi í sókninni.

22.mínúta: 49-38. Villunum rignir hér í kvöld. Núna hafa verið dæmdar 28 villur og stefnir í að bæði lið missi menn út af vellinum af þeim sökum.

21.mínúta: 47-35. Seinni hálfleikur hafinn. Bárður hefur væntanlega messað vel yfir sínum mönnum í hálfleik.

Hálfleikur: 47-35. Stigaskorun KR dreifist vel. Finnur Atli Magnússon er stigahæstur með 9 stig og Danero Thomas hefur sett 8. Friðrik Hreinsson er stigahæstur gestanna með 10 stig og hinn skapheiti George Valentine er með 8 stig.

Hálfleikur: 47-35. Tólf stiga forysta heimamanna sem líta nokkuð vel út í þessum leik.

18. mínúta: 44-29. George Valentine í liði Tindastóls fær tæknivillu og sest á bekkinn með fjórar villur á bakinu. Klaufalegt.

18. mínúta: 44-29. Varnarleikur KR er mjög sterkur og gestirnir tapa boltanum trekk í trekk.

15. mínúta: 34-27. Helgi Már, spilandi þjálfari KR er kominn með þrjár villur en honum er samt ekki skipt út af.

14. mínúta: 30-22. Góður sprettur KR og Bárður tekur leikhlé. Stólarnir verða að koma boltanum meira inn í teiginn.

12. mínúta: 26-23. Stólarnir fá mikið af fríum þristum.

Fyrsta leikhluta lokið: 24-20. Skemmtilegur leikur hér í Frostaskjóli. Danero Thomas er með 7 stig fyrir KR en Sigtryggur Björnsson er með 5 stig fyrir Tindastól.

8. mínúta: 21-17. Hörkuleikur í gangi hér.

6. mínúta: 13-7. Danero Thomas er að spila vel hjá KR, bæði í vörn og sókn.

4. mínúta: 10-4. Stólarnir eru ekki að ráða við hraðann hjá KR.

3. mínúta: 7 -4. Eftir brösuga byrjun eru leikmenn byrjaðir að sýna ágæt tilþrif í sókninni.

1. mínúta: Leikurinn er hafinn og gestirnir vinna uppkastið.

Fyrir leik: Martin á reyndar ekki langt að sækja hæfileikana, faðir hans er Hermann Hauksson, einn aðalspaði íslenskrar körfuboltasögu.

Fyrir leik: Baráttujaxlinn Helgi Rafn Viggósson var bestur Stólanna í tapinu gegn Stjörnunni, gerði 21 stig og reif niður 10 fráköst. Friðrik Hreinsson kom næstur með 16 stig.

Fyrir leik: Það er ljóst að bæði lið munu krefjast meira framlags frá erlendum leikmönnum sínum.

Fyrir leik: Heimamenn bjóða upp á troðslusýningu í upphitun við undirleik Gus Gus. Þeir kunna þetta Vesturbæjardrengir.

Fyrir leik: Kristinn Friðriksson, sérfræðingur Moggans, fær þvílíka stoðsendingu í blaðamannastúkuna - hamborgari með öllu.

Fyrir leik: Helgi Már Magnússon, leikmaður og þjálfari KR, þreytir hér frumraun sína á heimavelli sem þjálfari.

Fyrir leik: KR-ingum var spáð titlinum en Stólarnir eiga að enda í 9.sæti og missa af úrslitakeppninni. Sjáum hvað setur, spádómar eru eitt, veruleikinn annað.

Fyrir leik: KR-ingar eru með puttann á púlsinum og spila Retro Stefson í upphituninni. Glæsilega gert.

Fyrir leik: Brynjar Þór Björnsson skoraði mest fyrir KR í tapleiknum gegn Fjölni í fyrstu umferð, 24 stig en ungstirnið Martin Hermannsson setti 21 stig. Martin skoraði hvorki meira né minna en 15 stig af vítalínunni úr 16 skotum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×