Fótbolti

Samningar leikmanna Kristianstad renna út fyrir síðasta leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sif Atladóttir (númer 2) þarf að ganga frá nýjum samningi fyrir lokaleik tímabilsins.
Sif Atladóttir (númer 2) þarf að ganga frá nýjum samningi fyrir lokaleik tímabilsins. Mynd/Daníel
Það gæti komið upp neyðarástand hjá Íslendingaliðinu Kristianstad í sænska kvennafótboltanum því forráðamenn félagsins verða að ganga frá nýjum samningum við leikmenn sína fyrir lokaleik tímabilsins.

Elísabet Gunnarsdóttir þjálfar lið Kristianstad og með liðinu leika landsliðskonurnar Margrét Lára Viðarsdóttir, Sif Atladóttir, Katrín Ómarsdóttir og Guðný Björk Óðinsdóttir sem er að ná sér af krossbandasliti.

Sænska kvennadeildin klárast ekki fyrr en 3. nóvember og er þetta í fyrsta sinn sem það fara fram leikir í ellefta mánuði ársins. Ástæðan er að hlé var gert á deildinni á meðan Ólympíuleikarnir í London fóru fram.

Þetta þýðir að leikmenn Kristianstad renna út á samning í lok október og verða því samningslausir þegar kemur að síðasta leiknum. Samkvæmt reglum deildarinnar verða leikmenn að vera með samning til þess að fá að spila.

„Við vorum búin að ganga frá öllum samningum okkar áður en í ljós kom að síðustu leikirnir yrðu spilaði svona seint. Þetta er mjög óheppilegt en að sjálfsögðu verðum við búin að ganga frá nýjum samningum," sagði Mikael Forsberg hjá Kristianstad við damfotboll.com.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×