Körfubolti

Körfuboltadómarar verða appelsínugulir í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Einar Þór Skarphéðinsson í nýja dómarabúningnum í fyrstu umferðinni.
Einar Þór Skarphéðinsson í nýja dómarabúningnum í fyrstu umferðinni. Mynd/Daníel
Körfuknattleiksdómarafélag Íslands (KKDÍ) og Húsasmiðjan hafa skrifað undir þriggja ára samstarfssamning og mest áberandi breytingin í kjölfars þessa nýja samnings er sú að nú munu dómarar vera appelsínugulum dómaratreyjum.

„Þetta eru mikilvægir samningar fyrir okkur dómara og gera okkur kleift að halda úti öflugu félagsstarfi næstu árin og jafnframt efla og bæta körfuknattleiksdómgæslu hérlendis. Við fögnum því að ganga til samstarfs við Húsasmiðjuna sem einn af okkar aðalsamstarfsaðilum," segir Jón Bender, formaður KKDÍ, í fréttatilkynningu.

„Það er okkur mikilvægt að geta tekið þátt í að styðja við körfuboltaíþróttina og vera sýnilegir í einni vinsælustu íþróttagrein landsins en ekki síst að fá tækifæri til að leggja okkar að mörkum til að bæta og efla starfsemi Körfuknattleiksdómarafélags Íslands með þessum hætti." segir Magnús Magnússon, markaðsstjóri Húsasmiðjunnar.

Dómarar hafa verið svartklæddir undanfarin ár en svarti liturinn víkur nú fyrir appelsínugula litnum sem verður allsráðandi í Dominos-deildum karla og kvenna. Grár búningur er hinsvegar aðaltreyjan í öðrum deildum og flokkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×