Körfubolti

Keflvíkingar loksins komnir á blað í Dominosdeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflavíkur.
Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflavíkur. Mynd/Valli
Keflvíkingar unnu sinn fyrsta leik í Dominosdeild karla í körfubolta í kvöld þegar þeir sóttu tvö stig til Ísafjarðar. Keflavík var búið að tapa fyrstu þremur deildarleikjum sínum en vann nokkuð öruggan tíu stiga útisigur á KFÍ í Jakanum, 79-69.

Keflvíkingar töpuðu fyrstu fimm leikjum sínum á tímabilinu í deild (3), Lengjubikar (1) og Meistarakeppni (1) en hafa nú unnið tvo leiki í röð, fyrst stórsigur á 1. deildarliði Hauka í Lengjubikarnum og svo sigurinn á Ísafirði í kvöld.

Kevin Giltner skoraði 24 stig fyrir Keflavík og Michael Graion var með 18 stig og 17 fráköst. Momcilo Latinovic skoraði 25 stig fyrir KFÍ og Bradford Harry Spencer var með 15 stig.

Keflvíkingar voru í stuði í fyrsta leikhlutanum með Kevin Giltner í fararbroddi. Glitner skoraði 12 stig í leikhlutanum og Keflavík var með átta stiga forystu eftir hann, 24-16.

Ísfirðuingar unnu sig inn í leikinn í öðrum leikhluta og Keflvíkingar voru bara fjórum stigum yfir í hálfleik, 43-39. Momcilo Latinovic skoraði tíu stig í leikhlutanum.

Darrel Lewis skoraði 9 stig á fyrstu fimm mínútum þriðja leikhluta og hjálpaði Keflavíkurliðinu að komst tíu stigum yfir, 56-46. Keflvíkingar litu ekki til baka eftir að, unnu þriðja leikhlutann 22-10 og voru komnir 16 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 65-49. KFÍ lagaði aðeins stöðuna í lokin en sigur Keflavíkur var aldrei í hættu.



KFÍ-Keflavík 69-79 (16-24, 23-19, 10-22, 20-14)

KFÍ: Momcilo Latinovic 25, Bradford Harry Spencer 15/5 fráköst, Mirko Stefán Virijevic 11/5 fráköst, Pance Ilievski 8/4 fráköst, Jón Hrafn Baldvinsson 4/7 fráköst, Óskar Kristjánsson 4, Christopher Miller-Williams 2/5 fráköst.

Keflavík: Kevin Giltner 24/5 fráköst, Michael Graion 18/17 fráköst, Darrel Keith Lewis 15/5 fráköst, Magnús Þór Gunnarsson 9/4 fráköst, Valur Orri Valsson 4/6 fráköst, Snorri Hrafnkelsson 4, Ragnar Gerald Albertsson 3, Almar Stefán Guðbrandsson 2/5 fráköst/3 varin skot.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×