Fótbolti

Hönefoss bjargaði sér en Úlfarnir í umspil

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kristján Örn Sigurðsson
Kristján Örn Sigurðsson Mynd/Vilhelm
Hönefoss, lið Arnórs Sveins Aðalsteinssonar og Kristjáns Arnar Sigurðssonar, verður áfram meðal liða í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á næsta ári. Íslendingaliðið Sandnes Ulf þarf að leika tvo umspilsleiki gegn b-deildarliðinu Ullensaker/Kisa.

Hönefoss tapaði 4-1 á heimavelli fyrir Rosenborg sem átti í harðri baráttu við Strömsgodset um annað sætið í deildinni. Með sigri gátu bæði Frederikstad og Sandnes Ulf komist upp fyrir Hönefoss en bæði lið töpuðu leikjum sínum.

Steinþór Freyr Þorsteinsson var í byrjunarliði Sandnes Ulf sem tapaði 3-1 gegn Álasund. Arnór Ingvi Traustason kom inná sem varamaður en Óskar Örn Hauksson sat allan tímann á bekknum. Úlfarnir höfnuðu í 3. neðsta sæti deildarinnar og fara í umspilsleiki gegn Ullensaker/Kisa.

Veigar Páll Gunnarsson skoraði mark Stabæk sem tapaði 3-1 á útivelli gegn Strömsgodset. Veigar Páll jafnaði metin í 1-1 með marki á 13. mínútu áður en heimamenn bættu við tveimur mörkum, tryggðu sér sigur og um leið annað sæti deildarinnar á kostnað Rosenborgar.

Veigar Páll lék líklega sinn síðasta leik fyrir Stabæk í dag en samningur Garðbæingsins við félagið er að renna út. Sömu sögu er að segja um Elfar Frey Helgason sem var ekki í leikmannahópi gestanna í dag.

Indriði Sigurðsson lék allan leikinn með liði Viking í 2-1 sigri á Vålerenga. Pálmi Rafn Pálmason var í liði Lilleström sem gerði markalaust jafntefli við Haugesund á heimavelli.

Þá lék Birkir Már Sævarsson allan leikinn með liði Brann í 2-0 tapi á útivelli gegn Sogndal. Noregsmeistarar Molde lögðu Fredrikstad á útivelli 2-0 með tveimur mörkum undir lok leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×