Körfubolti

Úrslit Lengjubikarsins verða í Stykkishólmi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snæfell vann Lengjubikarinn haustið 2010.
Snæfell vann Lengjubikarinn haustið 2010. Mynd/Daníel
Körfuknattleikssamband Íslands hefur ákveðið að úrslit Lengjubikars karla munu fara fram í Stykkishólmi föstudaginn 23. og laugardaginn 24. nóvember næstkomandi.

Að venju verða undanúrslitin „Final-Four" haldin á föstudegi og svo úrslitaleikurinn sjálfur háður á laugardeginum. Þetta kemur fram á heimasíðu KKÍ.

Leiktímar verða kl. 18.00 og 20.00 á föstudeginum en úrslitaleikurinn verður svo kl. 16.00 daginn eftir.

Nú er ein umferð eftir í riðlakeppni Lengjubikarsins í riðlunum fjórum. Efstu lið hvers riðils fara áfram í úrslitin og því spenna framundan í lokaumferðinni í þremur riðlum af fjórum.

Grindavík og Keflavík leika hreinan úrslitaleik um efsta sæti A-riðils í lokaumferðinni. Sigurvegari þess leiks fer í undanúrslit.

Í B-riðli er Snæfell með einum sigurleik meira en KR. KFÍ fær Snæfell í heimsókn í lokaumferðinni og KR fær Hamar í heimsókn. Verði bæði lið jöfn á KR innbyrðis viðureignina á Snæfell.

Í C-riðli munu efstu tvö liðin Tindastóll og Stjarnan mætast í Garðabæ. Stjarnan þarf sigur til að jafna Tindastól að stigum. Fyrri leik liðanna lauk með 15 stiga sigri Tindastóls.

í D-riðli er Þór Þorlákshöfn búið að tryggja sér sæti í úrslitunum annað árið í röð. Þór Þ. er með tveggja stiga forskot á ÍR og verður alltaf ofar á innbyrðisviðureignum nái Breiðhyltingar að jafna þá að stigum.

Sigurvegarar A- og B-riðils mætast og C- og D-riðils í undanúrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×