Sport

Aðalheiður Rósa í 9. til 16.sæti á HM í karate

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aðalheiður Rósa Harðardóttir.
Aðalheiður Rósa Harðardóttir. Mynd/Karatesamband Íslands
Aðalheiður Rósa Harðardóttir endaði í 9. til 16. sæti á Heimsmeistaramótinu í karate í París en hún keppti í morgun í einstaklingskata kvenna. Aðalheiður Rósa var ein af 51 keppendum í greininni.

Aðalheiður Rósa lenti á móti Malunga frá Botsvana í fyrstu umferð og Kinsch frá Lúxemborg í annarri umferð. Aðalheiður sigraði báða þessa andstæðinga örugglega og var þar með komin í sextán manna úrslit þar sem hún mætti De la Paz frá Chile.

Aðalheiður framkvæmdi kata sem heitir Gojushiho-sho en andstæðingur hennar framkvæmdi kata sem heitir Annan en báðar þessar kata eru af háu erfiðleikastigi. Það fór svo að De la Paz sigraði Aðalheiðu naumlega 3-2.

Í átta manna úrslitum þá tapaði De la Paz hinsvegar fyrir hinni frönsku Scordo og þar með voru möguleikar Aðalheiðar á að keppa til bronsverðlauna úr myndinni. Sú franska mun keppa til úrslita í kata kvenna á laugardaginn.

Aðalheiður Rósa lenti því í 9. til 16. sæti í kata kvenna og er það frábær árangur hjá henni. Hún mun einnig keppa í liðakeppni með félögum sínum í íslensku sveitinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×