Körfubolti

Montrétturinn er líka undir hjá þeim í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflavíkur.
Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflavíkur. Mynd/Stefán
Það skýrist í kvöld hver tvö síðustu liðin verða í undanúrslitum Iceland Express-deildar karla þegar oddaleikir átta liða úrslitanna fara fram. Stjarnan tekur á móti Keflavík í Ásgarði í Garðabæ og Þór fær Snæfell í heimsókn í Icelandic Glacial-höllina í Þorlákshöfn.

Það má segja sem svo að sætið í undanúrslitunum sé ekki bara undir hjá þeim Teiti Örlygssyni, þjálfara Stjörnunnar, og Sigurði Ingimundarsyni, þjálfara Keflavíkur, sem eru að mætast í úrslitakeppninni í ellefta sinn á ferlinum. Svo skemmtilega vill til að staðan er ekki bara 5-5 milli þeirra í unnum einvígum heldur hafa þeir jafnframt unnið þrjá oddaleiki hvor á móti öðrum líka.

Sigurður vann þann fyrsta þegar Keflavík sló Njarðvík úr undanúrslitunum 1990 eftir sigur í tvíframlengdum oddaleik. Teitur vann síðan þrjá oddaleiki í röð á móti Sigurði, þar á meðal úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn 1991. Sigurður hefur síðan unnið tvo síðustu oddaleiki þeirra félaga, úrslitaleik um titilinn 1999, þegar Sigurður var þjálfari Keflavíkur en Teitur leikmaður Njarðvíkur, og svo þegar Njarðvík sló Stjörnuna út úr átta liða úrslitunum fyrir tveimur árum.

Sigurður hefur alls tekið þátt í 22 oddaleikjum á ferlinum og unnið 13 þeirra (59 prósent) en Teitur hefur unnið 11 af 18 oddaleikjum sínum (61 prósent), þar af tíu þeirra sem leikmaður.

Teitur og lærisveinar hans ættu að vera farnir að þekkja þessa stöðu mjög vel því þeir eru fjórða árið í röð í oddaleik í átta liða úrslitunum. Stjarnan féll úr leik 2009 og 2010 en komst áfram í fyrsta sinn í fyrra og fór þá alla leið í úrslitaeinvígið.

Keflvíkingar eru líka vanir þessari stöðu en þeir hafa unnið oddaleik í átta liða úrslitum undanfarin tvö ár en ólíkt leiknum í kvöld þá voru þeir báðir í Toyota-höllinni í Keflavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×