Golf

Barist um stigameistaratitilinn

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Signý Arnórsdóttir verður í baráttu um stigameistaratitilinn í kvennaflokki í dag.
Signý Arnórsdóttir verður í baráttu um stigameistaratitilinn í kvennaflokki í dag. mynd/GSÍ
Lokastigamótið á Eimskipsmótaröðinni í golfi, Síma-mótið, hófst í morgun á Grafarholtsvelli í Reykjavík. Leiknar verða 54 holur í mótinu, þar af 36 holur í dag, laugardag. Góð þátttaka er í mótinu og ellefu af alls tuttugu efstu á stigalistanum í karlaflokki eru á meðal keppenda. Hámarksfjöldi keppenda er 84 kylfingar í karlaflokki og komust ekki allir að sem vildu.

Hörð barátta er um stigameistaratitilinn hjá bæði körlum og konum. Haraldur Franklín Magnús úr GR, tvöfaldur Íslandsmeistari á þessu tímabili, er í efsta sæti á stigalista karla með 5266,43 stig. Haraldur verður hins vegar ekki með í mótinu um helgina en hann hélt nýverið til náms í Bandaríkjunum.

Hlynur Geir Hjartarson, úr GOS, er með pálmann í höndunum í karlaflokki með 5157,50 stig. Andri Þór Björnsson úr GR er þriðji en hann verður ekki með um helgina. Þórður Rafn Gissurarson úr GR kemur í 4. sæti og hann ásamt Rúnari Arnórssyni úr GK eru þeir einu sem geta náð Hlyni að stigum.

Í kvennaflokki verður baráttan um stigameistaratitilinn á milli Signýjar Arnórsdóttur og Guðrúnar Brár Björgvinsdóttur – báðar úr Keili. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR er í efsta sæti með 6002,50 stig en hún verður ekki með í lokamótinu þar sem hún hefur haldið til Bandaríkjanna í nám. Signý er önnur með 5892,50 stig en Guðrún Brá í þriðja sæti með 5241,25 stig. Fari Signý með sigur af hólmi í Grafarholti verður hún einnig stigameistari.

Keppni hófst kl. 7.30 í morgun eins og áður segir og eru keppendur ræstir út af 1. og 10. teigi. Síðari umferð dagsins hefst kl. 12.30 og er einnig ræst út af 1. og 10. teigi.- seth




Fleiri fréttir

Sjá meira


×