Körfubolti

Hnéð fór afar illa hjá Jóni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Sverrisson sést hér strax eftir atvikið en faðir hans er einn af þeim sem hjálpa honum á fætur.
Jón Sverrisson sést hér strax eftir atvikið en faðir hans er einn af þeim sem hjálpa honum á fætur. Mynd/Valli
Jón Sverrisson, körfuboltamaður hjá Fjölni, verður ekkert meira með liðinu á þessu tímabili og missir örugglega af stórum hluta af því næsta eftir að í ljós kom að hnémeiðsli hans eru mjög alvarleg. Jón meiddist mjög illa á hné í leik á móti Stjörnunni í Dominosdeildinni á dögunum.

„Slitið krossband, slitið liðband, sprunga í hnéskel og marið brjósk sem mun ÞVÍ MIÐUR halda mér frá körfuboltavellinum næsta árið eða svo," hefur karfan.is eftir Jóni á fésbókarsíðu hans.

Jón meiddist þegar Stjörnumaðurinn Brian Mills braut á honum í fyrsta leikhluta í fyrsta leik liðanna eftir áramót. Jón náði aðeins að spila sex mínútur í umræddum leik og var kominn með 5 stig og 3 fráköst þegar hann meiddist. Fjölnir var þá yfir, 18-11, en Stjarnan vann leikinn á endanum 95-87

Jón er lykilmaður í liði Fjölnis og hefur fengið meiri ábyrgð hjá liðinu með hverju tímabil. Hann hækkaði sig bæði í stigum og fráköstum með hverjum mánuði fyrir jól og var með 11 stig og 10,5 fráköst að meðaltali í leik í desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×