Körfubolti

McClellan á leið til KR | Missir af leiknum gegn KFÍ

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Meistaraflokkur karla hjá KR í körfubolta á von á liðstyrk. Bandaríkjamaðurinn Darshawn McClellan, sem er kraftframherji, er á leið til félagsins.

Helgi Már Magnússon, þjálfari KR, staðfesti þetta í samtali við íþróttadeild Vísis í dag. McClellan er þó ekki kominn til landsins þ.a. hann mun ekki spila með liðinu gegn KFÍ í Domino's-deildinni í kvöld. Hann verður þó klár í slaginn þegar KR tekur á móti Fjölni 13. janúar.

McClellan er tveir metrar á hæð og verður 24 ára síðar í mánuðinum. Hann spilaði þrjú ár með Vanderbilt-háskólanum en lék á síðasta ári með University of Louisiana. Þar var hann með 9,5 stig, 5,4 fráköst en hann spilaði rúmar 27 mínútur að meðaltali í leik.

Samkvæmt heimildum Íþróttadeildar hefur KR annan Bandaríkjamann í sigtinu sem ekki er ólíklegt að verði einnig í leikmannahópi KR gegn Fjölni. Helgi Már vildi ekki tjá sig um það. Hann sagði þó að markmiðið væri að ná í tvo Bandaríkjamenn.

Í spilaranum hér fyrir ofan má sjá myndband af McClellan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×