Körfubolti

Fyrstu leikir ársins í karlakörfunni í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Jónsson og félagar í Þór voru á toppnum yfir jólin.
Guðmundur Jónsson og félagar í Þór voru á toppnum yfir jólin. Mynd/Daníel
Dominos-deild karla í körfubolta fer af stað í kvöld eftir jólafrí en þá fara fram allir sex leikirnir í elleftu umferðinni. Þetta er síðasta umferðin í fyrri hlutanum og eftir hana hafa öll liðin í deildinni mæst.

Þór og Grindavík sátu í efstu tveimur sætunum yfir jólin en bæði liðin unnu 8 af 10 fyrstu leikjum sínum. Þór náði toppsætinu á betri árangri í innbyrðisleik liðanna en hann vann Þór á heimavelli eftir spennuleik.

Þór fær Skallagrím í heimsókn í kvöld en Grindavík tekur á móti Tindastól. Tindastóll vann sína fyrstu deildarleiki í síðustu tveimur leikjum sínum fyrir áramót en Skallagrímsmenn hafa aftur á móti tapað fimm leikjum í röð.

Snæfell og Stjarnan koma í næstu sætum og eru aðeins tveimur stigum á eftir og því gæti farið svo að fjögur lið yrðu jöfn á toppnum eftir leiki kvöldsins. Stjarnan tekur á móti Fjölni í Ásgarði en Snæfellingar heimsækja Njarðvíkinga í Ljónagryfjuna.

Tveir síðustu leikir kvöldsins eru síðan viðureign ÍR og Keflavíkur í Seljaskóla og leikur KR og KFÍ í DHl-höllinni. Allir leikir kvöldsins hefjast klukkan 19.15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×