Handbolti

Guif aftur á toppinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lið Guif.
Lið Guif. Mynd/Heimasíða Guif
Guif náði aftur efsta sætinu í sænsku úrvalsdeildinni í handbolta eftir fimm marka útisigur á Lugi, 30-25 í uppgjöri liðanna sem voru í 2. og 3. sæti fyrir leikinn. Guif og IFK Kristianstad eru nú bæði með 31 stig á toppnum en Guif er með betri markatölu.

Kristján Andrésson þjálfar lið Guif og með liðinu leika Íslendingarnir Haukur Andrésson og Heimir Óli Heimisson. Báðir skoruðu þeir eitt mark í leiknum en Guif-liðið tryggði sér sannfærandi sigur með frábærum seinni hálfleik.

Guif lenti þremur mörkum undir í fyrri hálfleik en staðan var jöfn í leikhléi, 11-11. Guif tók frumkvæðið með því að breyta stöðunni úr 15-14 fyrir Lugi í 15-18 fyrir Guif á fimm mínútna kafla í upphafi seinni hálfleiks. Guif-liðið leit ekki til baka eftir það og vann öruggan sigur.

Guif-liðið missti toppsætið með því að ná aðeins í eitt stig út úr þremur síðustu leikjum sínum á árinu 2012 en hefur byrjað vel eftir vetrarfríið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×